Vegna greinar Gunnlaugs Sighvatssonar: Uppbygging atvinnulífs í Strandabyggð

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri. Mynd: visir.is

Gunnlaugur Sighvatsson, ráðgjafi og stjórnarmaður í Vilja fiskverkun ehf., skrifar grein í bb um síðastliðna helgi.  Það er alltaf gott að fá fram ólík sjónarmið og í þessu tilviki koma þau frá einstaklingi sem þekkir vel atvinnulíf á Ströndum og í Strandabyggð.  En, það eru hins vegar nokkur atriði í greininni sem nauðsynlegt er að leiðrétta.

Fyrst er þó rétt að taka undir með Gunnlaugi, að atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd hefði vel mátt vera virkari.  Er þar fyrst og fremst um að kenna mannabreytingum í formennsku nefndarinnar og tómarúmi sem myndast við þær.  Og enn verða breytingar í formennsku þessarar nefndar, þar sem síðasti formaður hefur nú óskað lausnar frá störfum í sveitarstjórn.  En við munum manna formannssætið að nýju og auka tíðni funda.  Hins vegar er rétt að undirstrika, að þó nefndin hafi ekki fundað reglulega, þá hefur mikil og góð umræða farið fram innan sveitarstjórnar um atvinnumál og atvinnuuppbyggingu og er ávallt reynt að miðla þeirri umræðu til íbúa.

Og auðvitað erum við öll sammála Gunnlaugi um að Strandabyggð á sér að sjálfsögðu viðreisnar von og það er alger óþarfi að tala um brotna byggð. Íbúar eiga betra skilið.  Strandabyggð hefur vissulega gengið í gegnum mikla erfiðleika og áföll sem tengjast atvinnulífinu, en ávallt risið upp aftur. 

Lögbundin starfsemi eða styrkir

Það er svo, að kjörnir fulltrúar verða, samkvæmt sveitarstjórnarlögum, að huga að heildarhagsmunum og hafa það í huga við ákvörðunartöku um ráðstöfun fjármagns.  Í því felst ekkert tilfinningalegt mat á hin og þessi verkefni, heldur einfaldlega sá lagarammi sem okkur ber að starfa innan.  Og það er ekki alltaf auðvelt að taka ákvarðanir um ráðstöfun fjármagns, en við erum engu að síður kosin til þess að taka slíkar ákvarðanir.  Það er ljóst að íbúar hafa skoðanir á þeim ákvörðunum sem teknar eru og líta þá yfirleitt til þess hvernig fjármunum sveitarfélagsins er varið, í ljósi aðstæðna á hverjum tíma.  Í lýðræðissamfélagi eru slíkar skoðanir eðlilegar og réttmætar.

Mikið hefur verið skrifað um Galdrasafnið og Sauðfjársetrið og þá styrki sem þessi söfn hafa þegið frá sveitarfélaginu sl tvo áratugi eða svo.  Og menn geta og meiga hafa ólíkar skoðanir á því.  Þannig virkar lýðræðið.  En hitt ættum við hins vegar öll að geta verið sammála um, að mikilvægi þessara safna fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í Strandabyggð, á Ströndum og á Vestfjörðum, er óumdeilt.  Þar hafa einstaklingar unnið og vinna enn mikið og gott starf og það er mikilvægt að við hlúum að því starfi með jákvæðni.  Um mikilvægi þessara safna hefur aldrei verið efast eða deilt, amk ekki af hálfu meirihluta sveitarstjórnar Strandabyggðar.

Lokun Hólmadrangs og byggðakvóti

Það var mikið áfall þegar Hólmadrangur lokaði.  Um og yfir tuttugu manns misstu þar með vinnuna.  Það er rétt að það komi fram að sveitarstjórn Strandabyggðar, þingmenn kjördæmisins, Vestfjarðastofa og Gunnlaugur Sighvatsson, þá sem ráðgjafi eigenda Hólmadrangs, mynduðu eins konar neyðarhóp sem tók strax til starfa og leitaði leiða til að finna eða búa til ný störf.  Þarna unnu allir saman að því að finna lausn.

Eitt af því sem strax var rætt var, sértækur byggðakvóti.  Fyrsti þingmaður kjördæmisins, Stefán Vagn Stefánsson, studdi okkur mikið í þessari vinnu og talaði fyrir slíkum kvóta innan Byggðastofnunar.  Þann 4. október 2023, sendi sveitarstjórn Strandabyggðar, Byggðastofnun „beiðni um viðræður um úthlutun sértæks byggðakvóta til Strandabyggðar, í kjölfar lokunar Hólmadrangs og áhrifa þess á atvinnulíf í Strandabyggð“.  Í framhaldinu fór oddviti fór sérstaka ferð á Sauðárkrók til fundar með forstjóra og starfsmönnum Byggðastofnunar vegna málsins.  Framhaldið var síðan að úthlutað var hingað 500 tonnum af sértækum byggðakvóta.  Þarna unnu allir saman og sveitarstjórn og sveitarstjóri beittu sér sérstaklega fyrir því að fá hingað kvóta og tryggja uppgang veiða og vinnslu.  Sé síðan stiklað á stóru, var auglýst aftur á þessu ári eftir umsóknum um sértækan byggðakvóta til Strandabyggðar og niðurstaðan varð sú að Vilji fiskverkun ehf fékk sértækan byggðakvóta til næstu ára.  Því fögðuðu allir, enda gríðarlega mikilvægt skref í uppbyggingu atvinnulífs í Strandabyggð.

Það er því rangt af Gunnlaugi að halda því fram í sinni grein, að sveitarstjóri hafi unnið markvisst gegn því að hópur heimamanna fengi úthlutun.  Þetta eru alvarlegar ásakanir sem ekki er hægt að sitja undir.  Það var skýr krafa sveitarstjórnar og sveitarstjóra í allri umræðu um sértækan byggðakvóta til Strandabyggðar, að hann færi til heimamanna.  Aldrei var reynt á nokkurn hátt að koma þeim kvóta út úr sveitarfélaginu, enda sá lagarammi sem Byggðastofnun styðst við hvað úthlutun hans varðar, nokkuð skýr hvað það varðar.  Hins vegar var í umræðunni hugsanlegt samstarf við stórt fiskvinnslufyrirtæki frá Grindavík, Stakkavík og töldum við það mjög áhugavert og æskilegt í ljósi stærðar, getu og áhuga þess fyrirtækis á að byggja hér upp fiskvinnslu. Var talað um að Stakkavík myndi leggja til viðbótar kvóta jafnvel 1500-2000 tonn og það hljóta allir að sjá hvaða þýðingu það hefði haft í för með sér fyrir sveitarfélagið.  Eins spiluðu aðstæður í Grindavík á þeim tíma þarna inn í og litum við því á þetta sem mikið, en sjálfsagt tímabundið tækifæri.  En svo það sé alveg skýrt; umræðan um aðkomu þeirra var alla tíð sett fram sem samstarf við heimamenn, ekki án þeirra.  Allt tal um annað er einfaldlega ekki rétt.

Öll aðkoma sveitarstjóra var með vitund Byggðastofnunar, sem taldi ekkert óeðlilegt við það að sveitarstjóri tæki þátt í umræðunni, enda um að ræða eitt mesta hagsmunamál þessa sveitarfélags í atvinnumálum í áratugi.  Og það hefði án efa heyrst kvartað einhvers staðar í okkar ágæta sveitarfélagi, ef sveitarstjórn eða sveitarstjóri hefði ekki sýnt málinu áhuga. 

Það er vonandi að þessi samantekt leiðrétti þessi ósannindi, eða misskilning í grein Gunnlaugs

Viljayfirlýsingar, hótel og aðrar fjárfestingar

Það er erfitt að skilja skrif Gunnlaugs í greininni öðruvísi en svo, að hann hafi ekki trú á þessum verkefnum og telji tíma sveitarstjóra illa varið í slíkar viðræður og undirbúning.  Á sama tíma er kvartað yfir stefnuleysi í atvinnumálum.  Þarna fara ekki sama hljóð og mynd.

Það liggur fyrir viljayfirlýsing Strandabyggðar og  Fasteignaumsýslunar ehf um byggingu hótels á Hólmavík.  Hótelið er komið inn á aðalskipulag og verið er að vinna deiliskipulagslýsingu. Framundan er kynning á verkefninu meðal íbúa.  Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjst snemma næsta árs og að hótelið verið opnað síðla árs 2026.  Ef það er ekki liður í atvinnusköpun að reyna að fá til Hólmavíkur 20-25 manna vinnustað, með tilheyrandi tekjum fyrir sveitarfélagið, þá er bleik brugðið.

Og síðan liggur fyrir viljayfirlýsing við Íslensk Verðbréf um aðkomu þeirra og tengdra fyrirtækja að haftengdri uppbyggingu í Steingrímsfirði.  Unnið hefur verið að því að fá leyfi fyrir burðarþolsmati í Steingrímsfirði, m.a. vegna þararæktunar og hefur oddviti fundað með matvælaráðherra vegna þessa.  Eins er þrýst á að stjórnvöld tryggi fjármögnun á heitavatnsleit á Gálmaströnd til að hægt sé að kanna forsendur landeldis á regnbogasilungi í Steingrímsfirði.  Allt hefur þetta tekið tíma, m.a vegna þess að frumvarp matvælaráðherra um Lagareldi er í óvissu og eins vegna þess að boranir á Gálmaströnd liggja niðri. 

Í vinnu svokallaðrar Strandanefndar eru tillögur frá Strandabyggð um verkefni sem myndu efla atvinnu í sveitarfélaginu.  Þar á meðal er tillaga um framlengingu á verkefninu Brothættar byggðir, tillaga um fjármögnun lokaframkvæmda við heitavatnsleit á Gálmaströnd ofl.  Hvort þessar tillögur ná fram að ganga er óvíst og ekki í okkar höndum.  Mikil óvissa ríkir nú um stjórn þessa lands eftir kosningar og afdrif þeirra verkefna sem nú liggja fyrir.  En, við verðum að reyna og vona að þetta gangi eftir.

Við ættum að taka höndum saman um að tala þessi verkefni upp, í stað þess að gera lítið úr þeim. 

Niðurlag

Atvinnuuppbygging er langtímaverkefni sem kallar á úthald, framsýni og þor til að leita nýrra leiða.  Það teljum við okkur í meirihluta sveitarstjórnar hafa gert og raunar sveitarstjórn öll, þó spjótin standi á meirihlutanum í grein Gunnlaugs.  Viljayfrlýsingar eru oft fyrsta skref slíkrar uppbygginar.  Stundum ganga verkefnin eftir, stundum ekki.  En það er öruggt mál, að ef við gerum ekkert, gerist ekkert.

Það er gott að fá reynslumikla menn inn í atvinnulífið hér í Strandabyggð og við fögnum því, um leið og við köllum eftir samstarfi og auknum samskiptum um okkar sameiginlegu hagsmuni.

Þorgeir Pálsson

Oddviti Strandabyggðar

DEILA