Ísafjarðarbær: 9% hækkun fasteignaskatts og lóðarleigu

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ákvað á fundi sínum í síðustu viku fasteignagjöld næsta árs. Fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,54% í 0,50% en að öðru leyti er álagning fasteignaskattsins óbreytt frá yfirstandandi ári.

Fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði verður áfram 1,65% af fasteignamati, af opinberum byggingum er skatturinn 1,32% og lóðarleiga verður 1,5%.

Tekjur af fasteignaskattinum og lóðarleigu eru áætluð verða 741 m.kr. á næsta ári og hækka úr 679 m.kr. Hækkunin er 9% milli ára. Þegar litið er einvörðungu á íbúðarhúsnæði er hækkunin 8,6%.

Heildarfasteignamat í Ísafjarðarbæ árið 2025 er 86.309 m.kr. en var kr. 76.600 m.kr. árið 2024, sem er 12,7% hækkun. Frá árinu 2021 hefur fasteignamat hækkað um 83,4%.

Lækkun álagningarhlutfallsins á fasteignaskattinum úr 0,54% í 0,50% hefur áhrif á framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Ísafjarðarbæjar og veldur lækkun þess um 17,1 m.kr. á næsta ári.

DEILA