Ákall um betri samgöngur á Vestfjörðum 

Innviðafélag Vestfjarða kynnti í gær „Vestfjarðalínuna“ en það er sérstakt átaksverkefni um betri samgöngur á Vestfjörðum. Það er ákall um gerð sérstaks samgöngusáttmála fyrir Vestfirði þar sem samgöngum er lyft á viðunandi stall á næstu 10 árum.

Á fundinum sem haldinn var í Hörpu ráðstefnu- og tónlistarhúsi, tónlistarhúsi í tengslum við Arctic Circle ráðstefnuna sem þar fer nú fram, kynnti Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis og forsvarsmaður Innviðafélagsins framtíðarsýn þess um betri samgönguinnviði Vestfjarða. Einnig var opnaður sérstakur upplýsingavefur verkefnisins sem ber heitið „Vestfjarðalínan“. 

Framtíðarsýn um betri samgönguinnviði Vestfjarða vísar til öflugra heilsárstenginga milli atvinnusvæða á Vestfjörðum, öruggari samgangna frá öllum þéttbýlissvæðum, og vegurinn frá höfuðborgarsvæðinu til Vestfjarða yrði að mestu leyti láglendisvegur.

Vestfjarðalína er ákall um gerð sérstaks samgöngusáttmála fyrir Vestfirði þar sem samgöngum er lyft á viðunandi stall á næstu 10 árum. Það kallar á jarðgangagerð og umfangsmiklar vegabætur sem styttir ferðatíma, eykur umferðaöryggi og dregur úr viðhaldsþörf.

Guðmundur nefndi á fundinum að Vestfjörðum myndist gríðarleg verðmæti í fjölmörgum atvinnugreinum. „Síðustu ár hafa nýsköpun, frumkvöðlastarf og nýjar atvinnugreinar stuðlað að efnahagsævintýri á Vestfjörðum, en árlegar tekjur 100 stærstu fyrirtækjanna á svæðinu uxu úr 43 milljörðum í 92 milli 2018-2022 sem þjóðin öll nýtur góðs af í gegnum auknar útflutnings- og skatttekjur. Sterkir innviðir eru forsenda áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu með tilheyrandi aukningu lífsgæða og framlagi til þjóðarbúsins.“ 

„En betur má ef duga skal. Vilji þjóðin njóta áfram góðs af vexti atvinnulífs Vestfjarða og auka skatttekjur eru afgerandi samgöngubætur nauðsynlegar. Með framkvæmd Vestfjarðalínu yrði dregið úr þeim aðstöðumun sem fjórðungurinn býr við í samgöngumálum. Einungis þannig geta Vestfirðir vaxið og dafnað. Nauðsynlegar vegabætur auka umsvif, bæta mannlíf og auðvelda fólki að sækja Vestfirði heim,“ segir Guðmundur Fertram.

„Það er mat okkar hjá Innviðafélagi Vestfjarða að með breyttu viðhorfi og nálgun í uppbyggingu samgönguinnviða megi flýta framkvæmdum, finna leiðir til fjármögnunar og forgangsraða með sanngjörnum hætti,“ segir Guðmundur Fertram. „Innviðauppbygging samgangna Vestfjarða yrði þannig tekið sem eitt samstillt verkefni. Markmiðið er að hugað verði í senn að tengingu suður-og norðurhluta svæðisins sem og uppbyggingu láglendisvegar frá Vestfjörðum að höfuðborgarsvæðinu.““

Á næstu vikum mun Innviðafélag Vestfjarða halda opna fundi um samgöngumál á Vestfjörðum. Fyrsti fundurinn er fyrirhugaður 7. nóvember nk. með öllum framboðum til komandi þingkosninga. Þá boðar félagið til fundar um efnahags- og skattaspor Vestfjarða 21. nóvember.

DEILA