Vikuviðtalið: Kjartan Jakob Hauksson

Ég heiti Kjartan Jakob Hauksson, barinn og berfættur á Vestfjörðum eins og einhver orðaði það. Á þrjú börn þau Hauk Jakob, Líf og Sögu ásamt barnabörnum. Varð svo nýlega langafi.  Er fæddur og uppalinn á Ísafirði, ættaður úr Reykjarfirði (nyrðri) í móðurætt og frá Uppsölum í Seyðisfirði við Djúp í föðurættina. 

Foreldrar mínir heita Valgerður Jakobsdóttir og Haukur S Daníelsson sem er látinn.  Við ólumst upp fimm systkinin í Tangagötu 20 og bjuggum seinna í Skipagötu 8 svo ég er neðribæjar púki svokallaður.  Var mikið á Bökkunum og í Dokkunni svo maður kallar sig einnig bakka og dokku púka eins og þá tíðkaðist.  Án þess sjálfur að hafa samanburð þá trúi ég að varla hefði verið betra að alast upp annarstaðar því frjálsræðið var mikið og leiksvæðin voru helst fjaran, bryggjur, gamlir hjallar og bátar í fjöru.  Snemma smíðaði maður einnig árabáta og oft með aðstoð Daníels föðurafa sem vann sem skipasmiður hjá Marsellíusi S.G. Bernharðssyni á Ísafirði.

Sem útgerðarmaður árabáta frá 6 ára aldri komst maður úr fjörunni og oft veiddum við mikið af þorski í firðinum.  Fyrsta mótorbátinn eignaðist ég svo fimmtán ára sem ég gerði upp með aðstoð pabba og notaði hann til veiða og skytterís.  Það segir mikið um frjálsræðið að áhyggjur foreldra minna urðu helst áberandi ef ég skilaði mér ekki heim fyrr en seint um nótt eða undir morgun ef ég fór einn á bátnum að veiða eða skjóta fugl enda bara 15 ára er ég byrjaði slíkt í Djúpinu.

Margt var í boði á Ísafirði svo ég var í Tónlistarskólanum, spilaði í lúðrasveitinni á trompet við ýmis hátíðleg tækifæri í bænum. Æfði júdó og einnig skíðagöngu sem ég keppti í.

Segi stundum að ég hafi sem unglingur einnig alist upp á dekkjaverkstæðinu hjá þeim vandaða manni Jónasi Björnssyni og á ég honum mikið að þakka.  Hann kenndi mér margt. Skátastarf og seinna starf í Hjálparsveitinni í um 17 ár var það sem heillaði einnig.

Er með vélstjórnar og skipstjórnarréttindi ásamt réttindum í atvinnuköfun. Lærði atvinnuköfun í Bretlandi, Skotlandi og Bandaríkjunum og hef kennt köfun einnig.  Atvinnuköfun hefur átt stóran sess í lífi mínu og var ég m.a  til margra ára í nefnd á vegum Siglingastofnunar, seinna Samgöngustofu sem hafði með atvinnuköfun að gera. Þar var m.a.  fengist við að meta erlent nám til réttinda hér en einnig að yfirfara kennsluefni og starfa sem prófdómari á námskeiðum sem haldin voru í atvinnuköfun fyrir slökkvilið landsins, sérsveit lögreglunnar og Landhelgisgæsluna.

Vinna í vélsmiðjum og á sjó var það sem ég helst fékkst við ásamt atvinnuköfun.  Var verkstjóri í Vélsmiðjunni Þór á Ísafirði þar til henni var lokað 1991 en þá fór ég endanlega alveg útí sjálfstæða atvinnustarfsemi og hef haldið því áfram síðan.

Stofnaði fyritækið Sjótækni, er framkvæmdastjóri þar og annar af tveimur eigendum.  Við erum með starfstöðvar á Tálknafirði, Ísafirði og í Reykjavík.  Við sinnum ýmsum verkefnum á sjó og landi en stærsti hluti verkefna okkar tengist þjónustu við fiskeldi á Vestfjörðum.  Starfsmenn eru um 40 talsins og gerum við út nokkra báta ásamt mikið af sérhæfðum búnaði.  Það er gaman að taka þátt í uppbyggingu eldisins, sjá og finna hve mikil og góð áhrif það hefur á mannlífið þar sem það vær að vaxa og dafna.  Vona þó að eftir kosningar taki ekki við stjórn sem kaffærir hér fyrirtæki í sköttum því það er aldrei rétta leiðin.

Áfram Vestfirðir og Ísland allt.  Takk fyrir mig. 

DEILA