Listasafn Íslands með námskeið á Ísafirði

Frá námskeiðinu á Ísafirði. Mynd: Listasafn Íslands.

Listasafn Íslands stóð nýlega fyrir þremur námskeiðum fyrir kennara sem haldið var á Ísafirði.

Námskeiðin voru haldin í samhengi við námsefni Listasafns Íslands, Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi.

Sjónarafl miðar með markvissum hætti að því að tengja kennslu í myndlæsi og listasögu við skólakerfið og auka þekkingu nemenda á menningarsögu og menningararfi þjóðarinnar. Þjálfun í myndlæsi eykur einnig hæfni í tjáningu, virkri hlustun, hugtakaskilningi og gagnrýnni hugsun.

„Það var gjöfult að geta boðið upp á faglegt námskeið í myndlæsi fyrir kennara á svæðinu og bjóða þá velkomna á listasafnið – ég efast ekki um að þau kíki næst með nemendahópana sína!“ segir Rannveig Jónsdóttir, safnstjóri Listasafns Ísafjarðar.

Fullt var á öll námskeiðin, en þau sóttu kennarar m.a. frá Ísafirði, Bolungavík, Þingeyri, Önundarfirði, Flateyri og Súðavík. Þátttakendur fengu góða kynningu á námsefninu ásamt því að allir prófuðu að beita aðferðum myndlæsis með því að nota verkin á sýningunni Framtíðarfortíð þar sem valin verk úr safneign Listasafns Íslands eru til sýnis í Listasafni Ísafjarðar en sú sýning stendur til 19. október 2024.

„Almenn ánægja var meðal þátttakenda með námskeiðið sem þeir sögðu vera praktískt tveggja tíma námskeið. Að námskeiðinu loknu töldu kennararnir sig geta innleitt aðferðina í sínu kennsluumhverfi með aðstoð bókarinnar“ – Ingibjörg Hannesdóttir, sérfræðingur hjá Listasafni Íslands.

Listasafn Íslands vinnur að þróun fjarkennslu og heldur reglulega námskeið fyrir kennara í myndlæsi um land allt.

DEILA