Lilja kom í tólftu tilraun

Ásthildur og Hafþór með ljósgeislann, Lilju litlu. Mynd: mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Vesturbyggðar og Hafþór Jónsson eiginmann hennar um langt og strangt ferli sem undan er gengið í lífi þeirra við að eignast barn. Í fjögur ár voru þau reglulegir gestir í Art Medica þar sem Ásthildur fór í gegnum hverja glasafrjóvgunina á fætur annarri, í 10 skipti var reynt, en allt kom fyrir ekki og þó voru þau Ásthildur og Hafþór þó búin að fá þá greiningu hjá stofnuninni að það ætti í raun ekkert að standa í veginum fyrir að þau gætu eignast barn eftir þessum leiðum. Aldur Ásthildar, sem var 38 ára þegar að ferlið hófst, og óútskýrð ófrjósemi gerði það að verkum að Ásthildur varð ekki barnshafandi tjáði læknir þeirra á stöðinni að 10 uppsetningum liðnum.

Ásthildur og Hafþór voru ekki tilbúin að gefast upp og leituðu þau til læknamiðstöðvar í Grikklandi eftir ábendingu frá vinkonu þeirra. Um leið og Ásthildur fer í skoðun þar kemur í ljós að hún er með fyrirstöðu í leginu sem læknunum hér heima hafði yfirsést, sem gerði það að verkum að hún gat ekki orðið barnshafandi og var strax framkvæmd minniháttar aðgerð til að fjarlægja fyrirstöðuna.

Frjóvgun tókst í annað skiptið sem Ásthildur fór í hana á grísku læknastöðinni Serum, en þegar að ekki tókst í fyrstu tilraun þar var hún alveg komin að því að missa móðinn, en eigandinn Penny sat hjá henni og taldi í hana kjarkinn að nýju og lofaði henni að nú myndi þetta takast: „Hættu að væla! Þú getur orðið ófrísk og ég legg hús mitt að veði að þú eignist barn. Og þú munt eignast barn á þessu ári, ég lofa þér því!“ Ekki laug Penny, því eftir þessa tólftu uppsetningu varð draumurinn um að verða barnshafandi að veruleika. Í byrjun októbermánaðar fæddist þeim Ásthildi og Hafþóri dóttirin Lilja, agnarsmá en hraust og falleg. Kom hún í heiminn rúmum tveimur mánuðum fyrir áætlaðan dag eftir að Ásthildur veiktist harkalega af meðgöngueitrun.

Ásthildur og Hafþór eru hreinskilin og opin í umfjölluninni um þetta erfiða ferli sem undan er gengið og má lesa viðtalið hér.

annska@bb.is

DEILA