Sjómokstur: samið við Búaðstoð í Önundarfirði

Flateyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur ákveðið að taka tilboði Búaðstoðar vegna snjómoksturs á Flateyri og í Önundarfirði.

Þrjú tilboð bárust í snjómoksturinn á Flateyri og önnur þrjú tilboð í moksturinn í sveitinni. Búaðstoð ehf og Kjarnasögun ehf buðu í bæði verkin en auk þess bauð Ívar Gröfukall ehf í snjómoksturinn á Flateyri og Urðaklettur ehf. í sveitinni. Samið er til þriggja ára.

Tilboðin voru metinn eftir þremur þáttum, einingaverði sem boðið var, vélarafli moksturstækis og hvort vængskófla væri í boði.

Búaðstoð ehf skoraði hæst í öllum þáttum í mokstri í sveitinni og var með einu stigi meira í heildarstigagjöf á Flateyri en Kjarnasögun ehf. sem bauð lægst einingaverð.

Snjómokstur í Önundarfirði er mokstur út í Valþjófsdal og inn að Hóli í Önundarfirði. Á Flateyri er snjómokstur á helstu götum, bifreiðastæðum og aðkomuleiðum.

Á Flateyri er einingaverðið 20.968 kr. og í sveitinni er það 16.129 kr.

DEILA