Eldislax: 1,5 – 2 milljarðar króna á viku

Þessar vikurnar er útflutningsverðmæti á slátruðum eldislaxi 1,5 – 2 milljarðar króna á viku. Slátrað er á þremur stöðum á landinu, á Bíldudal, í Bolungavík og á Djúpavogi. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta hefur framleiðslan aukist eftir því sem liðið hefur á árið og fara um 1.600 tonn af laxi í gegnum húsin þrjú í hverri viku. Útflutningsverðmæti eldislaxins er 1,5 – 2 milljarðar króna á hverri viku.

Búist er við því að framleiðslan aukist þegar líður fram á veturinn og verði um 1.900 – 2.000 tonn á viku. Verðið á laxinum á erlendum mörkuðum hefur frekar hækkað en auk þess eru sveiflur í verðinu yfir árið. Heldur lægra er það á haustin og hækkar á öðrum tíma ársins. Gangi þetta eftir gæti útflutningsverðmætið einhverjar vikurnar farið yfir 2 milljarða króna á viku þegar á næsta ári.

Einn milljarður kr. að meðaltali

Framan af árinu var framleiðslan minni m.a. vegna þess að slátra varð miklu magni af ungfiski í fyrra á Vestfjörðum vegna lúsaálags og á Austfjörðum var öllum fiski slátrað í hitteðfyrra vegna veirusýkingar og ákveðið að byrja eldið upp á nýtt. Horfur eru á því að þegar árið 2024 verður gert upp verði meðalútflutningsverðmæti eldislax á landinu einn milljarður króna í hverri viku.

80-90 þúsund tonn eftir þrjú ár

Fram kom á Sjávarútvegsdeginum 2024, ráðstefnu samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem haldin var í Hörpu á þriðjudaginn að mikil aukning er framundan í laxeldinu. Miðað við það magn af seiðum sem framleidd hafa verið megi búast við að eftir þrjú ár verði uppskeran 80 – 90 þúsund tonn af eldislaxi. Er það um tvöfalt meira en framleiðslan var í fyrra. Ætla megi að útflutningsverðmætið verði nálægt 100 milljörðum króna ef allt gengur vel.

DEILA