Alþingiskosningar: uppstilling á lista

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri er orðuð við framboð til Alþingis fyrir Samfylkinguna.

Ljóst er nú að alþingiskoningar verða 30. nóvember n.k. og skila þarf inn framboðlistum eigi síðar en 31. október. Stjórnmálaflokkarnir hafa því lítinn tíma til stefnu og snúið að koma við prófkjörum. Sjálfstæðisflokkurinn mun halda kjördæmisþing í Norðvesturkjördæmi um næstu helgi og þar er áformað að ganga frá skipan efstu sæta. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, utanríkisráðherra og oddviti listans íhugar að færa sig úr kjördæminu og bjóða sig fram í Suðvesturkjördæmi. Teitur Björn Einarsson alþm. hyggst bjóða sig fram að nýju, en hefur ekki brugðist við áformum oddvita listans.

Framsóknarmenn halda kjördæmisþing um næstu helgi að Laugum í Sælingsdal. Það hafði verið sett á áður en slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu og ekki gert ráð fyrir því að þar yrði stillt upp á framboðslista. Halla Signý Kristjánsdóttir alþm. sagði að halda þurfti tvöfalt kjördæmisþing til þess og bjóst hún við því að það yrði haldið viku seinna eða um helgina 26.-27. október.

Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi er þegar byrjuð að undirbúa kosningarnar. Steindór Haraldsson, formaður kjördæmisráðs segir að á morgun, fimmtudag verði gengið frá ákvörðun um uppstillingu og skipan uppstillingarnefndar. Hann átti frekar von á því að unnið yrði hratt og að mynd yrði komin á skipan framboðslistans í næstu viku. Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ er ritari Samfylkingarinnar og hefur verið orðuð við framboð og þá til þess að leiða listann, en hún hefur ekkert látið hafa eftir sér um það.

DEILA