Fjórðungsþing: tillaga um útboð framkvæmda

Nýi vegurinn endar við Dynjandisá. Þaðan eru um 6,5 km að nýja veginum í Dynjandisvoginum. Ekkert er minnst á þennan lokaáfanga í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2025.

Fyrir komandi fjórðungsþingi liggur tillaga frá Innviðanefnd Fjórðungsambandsins um frestun útboða í vegaframkvæmdum á árinu 2024.

Lýst er miklum vonbrigðum með frestun útboða á árinu 2024 á verkefnum sem eru á framkvæmdaáætlun samgönguáætlunar og ítrekuð loforð innviðaráðherra um samhangandi framkvæmdir á Dynjandisheiði og Gufudalssveit.

Í tillögunni segir að Fjórðungsþing Vestfirðinga skori á innviðaráðherra og Alþingi setja í forgang eftirfarandi verkefni:

  • Tryggt verði fjármagn til nýframkvæmda til að ljúka við síðasta áfanga í vegagerð um Dynjandisheiði og verkefninu verði lokið á árinu 2025.
  • Tryggt verði fjármagn til nýframkvæmda til að hefja útboð á þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar á árinu 2025 og miðað við að verkefninu sé lokið 2026.
  • Tryggt verði fjármagn til endurbóta og nýframkvæmda á Strandavegi norður í Árneshrepp, minnt er hér á fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í sveitarfélaginu.

Fjórðungsþing Vestfirðinga verður haldið um næstu helgi að Laugarhóli í Bjarnarfirði í Strandasýslu.

DEILA