Bíldudalur: þrjú tilboð í nýjan skóla

Frá Bíldudal. Íþróttamiðstöðin Bylta blasir við. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þrjú tilboð bárust í smíði á nýju skólahúsnæði á Bíldudal. Um er að ræða bæði leikskóla og grunnskóla.

Tilboðin sem bárust voru eftirfarandi:

Land og verk : 494.219.637 kr.
Hrífunesskógar : 479.287.089 kr.

Arctic north : 466.500.420 kr.

Kostnaðaráætlun var 375.897.217 kr.

Bæjarráð Vesturbyggðar leggur til við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs. Bæjarstjórnin kemur saman á morgun.

Tilboð Arctic north, sem er verktakafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu er 24% yfir kostnaðaráætlun.

Gamla skólahúsnæðið varð ónothæft vegna myglu og er kennt í bráðabirgðahúsnæði. Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að gert væri ráð fyrir að byggingin verði tilbúin við upphaf næsta skólaárs 2025/26.

Bæjarsjóður ber kostnaðinn af byggingunni, en samið var við Ofanflóðasjóð um 137 m.kr. greiðslu gegn því að ekki verði lagt út í varnir við gamla skólahúsnæðið og svo fékk Vesturbyggð 46,5 m.kr. styrk frá Fiskeldissjóði fyrr á árinu til byggingarframkvæmdanna.

DEILA