Ungmennafélag Grindavíkur, útivist fyrir karla á Ísafirði og skíðafélag Strandamanna hlutu Hvatningarverðlaun UMFÍ 2024. Verðlaunin voru afhent á sambandsráðsfundi UMFÍ sem fram fór um liðna helgi.
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, afhenti fulltrúum sambandsaðila UMFÍ verðlaunin.
Ungmennafélagið Grindavík
Íþróttabandalag Suðurnesja (ÍS) hlýtur Hvatningarverðlaun UMFÍ 2024 fyrir óeigingjarnt starf Ungmennafélags Grindavíkur í þágu samfélagsins í tengslum við eldsumbrot og starfsemi félagsins. Félagið hefur frá því eldsumbrot hófust í bænum staðið í ströngu við að halda starfsemi félagsins gangandi. Félagið vinnur enn að því að koma iðkendum í önnur félög og ýmis önnur verkefni sem seint geta talist hefðbundin kjarnastarfsemi félags.
Karlahreysti
Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) hlýtur Hvatningarverðlaunin fyrir verkefni félagsmanna Íþróttafélagsins Vestra um karlahreysti, eftirtektarvert og óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Frá árinu 2018 hafa Júlíus Ólafsson og Óðinn Gestsson verið í forsvari fyrir og leitt hóp karla sem stundar reglulega útvist og hreyfingu undir heitinu Karlahreysti. Snemma fengu þeir til liðs við sig Árna Heiðar Ívarsson íþróttafræðing sem skipuleggur æfingar hópsins sem hittist þrisvar í viku yfir veturinn. Karlahreystin á Ísafirði þjónar sama tilgangi en þar er áherslan á líkamlega hreyfingu.
Skíðadeild Strandamanna
Héraðssamband Strandamanna hlýtur Hvatningarverðlaun UMFÍ fyrir eftirtektarvert og óeigingjarnt starf Skíðafélags Strandamanna og uppbyggingu aðstöðu þess. Skíðafélagið Strandamanna var stofnað í lok árs 1999 og hefur verið í sérstaklega örum vexti undanfarin ár. Eftir byggingu nýs skíðaskála árið 2015 hefur félagið unnið ötullega að því að vera með eitt fremsta skíðagöngusvæði landsins. Stjórn félagsins og skíðaþjálfarar, iðkendur á öllum aldri, foreldrar og aðrir sjálfboðaliðar eiga heiður skilið fyrir óeigingjarnt og metnaðarfullt starf. Öll þjálfun á vegum félagsins er unnin í sjálfboðavinnu.