Mesta umferð í einum mánuði frá upphafi mælinga

Umferðin jókst um 1,7% milli september mánaða árin 2023 og 2024. Mest jókst umferðin í mælisniði á Reykjanesbraut, eða um 2%, en minnst um mælisnið á Vesturlandsvegi eða um 1,4%. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Aldrei áður hefur umferð mælst meiri í nokkrum mánuði frá því að þessi samantekt hófst, árið 2005.

Í fyrsta sinn fór samanlögð meðalumferð á sólarhring yfir 190 þúsund ökutæki. Eldra met var frá því í júní 2023 en þá fóru rétt rúmlega 187 þúsund ökutæki á sólarhring um mælisniðin þrjú.


Uppsöfnuð umferð hefur aukist um 3,3%, frá áramótum, borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Þessi aukning er talsvert undir þeirri stöðu, sem lá fyrir á sama tíma á síðasta ári, en þá var uppsöfnuð umferð 4,7%.

Í nýliðnum mánuði var mest ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum. Þó minnst haf verið ekið á sunnudögum jókst umferðin, hlutfallslega mest á þeim vikudögum en minnst á mánudögum.

DEILA