Metmæting á opnun PIFF

Fjöldi fólks sótti opnun PIFF kvikmyndahátíðarinnar í Ísafjarðarbíói í gær. Pigeon International Film Festival er nú haldin í fjórða sinn og stendur yfir í fjóra daga. Fara sýningar fram bæði á Ísafirði og í Súðavík. Óhætt er að segja að hátíðin sé búin að festa sig í sessi miðað við fjölda gesta en metmæting var á opnunina. Fyrsta sýning hátíðarinnar var heimildarmyndin Afsakið meðan ég æli eftir Ísfirðinginn Spessa sem sagði frá myndinni bæði fyrir og eftir sýninguna í spjalli við rithöfundinn Eirík Örn Norðdahl.

Hátt í 40 myndir verða sýndar í ár. Þar af tólf stuttmyndir, fimm heimildarmyndir, sex teiknimyndir, fimm nemendamyndir og tíu kvikmyndir í fullri lengd. Sýningar fara svo fram á Ísafirði og í Súðavík frá fimmtudegi til sunnudags – og ættu allir kvikmyndaunnendur að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allt frá íslensku morðgátunni Eftirleikir og sannsögulega pólska njósnadramanu Doppelganger til indversku barnamyndarinnar Return of the Jungle.

Um 30 erlendir gestir hafa komið víðs vegar að til að fylgja myndu sínum eftir. Einn þeirra er John Farelly, leikstjóri fyrstu hrollvekjunnar sem fer fram á gaelísku. „Við erum sérstaklega ánægð með að vera hluti af PIFF vegna hollustu hátíðarinnar við að sýna kvikmyndir sem þrýsta á mörk og kanna nýjar frásagnir. Einstök umgjörð Ísafjarðar og orðspor hátíðarinnar fyrir að hlúa að innilegu og grípandi andrúmslofti gera hana að fullkomnum stað til að sýna An Taibhse,“ segir hann.

Dagskránni lýkur svo með verðlaunahátíð á sunnudagskvöld sem streymt verður í beinni útsendingu út um allan heim. Nánari upplýsingar er að finna á piff.is

DEILA