Frí menning í boði á PIFF

Fjórar kvikmyndir og tveir stuttmyndapakkar eru á dagskrá PIFF í dag og fara sýningar fram bæði í Súðavík og á Ísafirði. Kvikmyndaunnendur ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Dobbleganger eftir leikstjórann Jan Holoubek sem byggir á sannri sögu njósnara í Þýskalandi. Jan ætti að vera PIFF-gestum kunnugur en mynd hans 25 years of Innocence vann þó nokkur verðlaun á PIFF árið 2022 þar á meðal fyrir bestu mynd hátíðarinnar. Einnig er að finna á dagskránni kanadískt fjölskyldudrama, pólska hryllingssögua af nútímamanni í starfsleit að loknu námi og íranska spennusögu sem fjallar um afleiðingar af óvæntu dauðsfalli um borð í rútu fullri af ókunnugum ferðalöngum.

Ýmissa grasa kennir í stuttmyndum dagsins eins og alíslenskan pakka af margs konar myndum  og  spænska mynd um Melrakkasetrið í Súðavík. Þá munu þó nokkrir kvikmyndagerðarmenn sitja fyrir svörum úr sal að sýningum loknum. Nánari upplýsingar um myndirnar, sýningartíma og –staði er að finna á piff.is.

Frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar. „Þökk sé okkar frábæru styrktaraðilum þá er hátíðin algjörlega frí, “ segir Fjölnir Baldursson, hátíðarstjórnandi. Þetta er hægt með stuðningi Kvikmyndamiðstöðvarinnar, Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Ísafjarðarbæjar og fjölda fyrirtækja í heimabyggð að ógleymdu Ísafjarðarbíói. Menningu er erfitt að byggja upp án fjárstuðnings fyrirtækja í heimabyggð – og án menningar væri erfitt að halda uppi byggð á Vestfjörðum. Við hjá PIFF erum því afar þakklát fyrir stuðninginn.“

DEILA