Spilkoppur frá Þingeyri

Spilkoppur, grár á litinn, en á hann hefur verið skrifað með tússpenna: „Versl. Sig Fanndal Siglufirði“ og var hann til sölu í Veiðarfæraverzlun Sigurðar Fanndal.

Skv. viðtali við Sigurð Fanndal (02.10.1942) var þessi spilkoppur framleiddur á Þingeyri af Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar – en sú vélsmiðja hóf starfsemi undir nafni Guðmundar árið 1927.

Í dag (2023) er Vélsmiðjan varðveitt af Byggðasafni Vestfjarða á Ísafirði.

Spilkoppar voru notaðir til að draga inn net og annað skv. Sigurði.

Gripurinn kemur af lager Veiðarfæraverzlunar Sigurðar Fanndal sem var staðsett að Eyrargötu 2 á Siglufirði og stofnuð árið 1921, þá sem matvöruverslun. Stofnandi verslunarinnar var Sigurður Jóhann Sveinsson Fanndal (06.04.1876 – 14.10.1937). Georg Fanndal (13.07.1917 – 12.01.1970), sonur hans tók við búðinni við andlát föður síns, en um ári fyrir andlát hans hafði versluninni verið breytt úr matvöruverslun í veiðarfæraverslun. Sigurður Fanndal (02.10.1942), bróðursonur Georgs, tók við versluninni við andlát Georgs árið 1970, en þar hafði hann starfað sem sendill og aðstoðarmaður frá 12 ára aldri, og rak þar Veiðarfæraverzlun Sigurðar Fanndal allt til að henni var lokað árið 1997.

Af vefsíðunni sarpur.is

DEILA