Metmæting á opnun PIFF

Fjöldi fólks sótti opnun PIFF kvikmyndahátíðarinnar í Ísafjarðarbíói í gær. Pigeon International Film Festival er nú haldin í fjórða sinn og fara sýningar fram bæði á Ísafirði og í Súðavík. Óhætt er að segja að hátíðin sé búin að festa sig í sessi miðað við fjölda gesta en metmæting var á opnuna. Fyrsta sýning hátíðarinnar var heimildarmyndin Afsakið meðan ég æli eftir ísfirska ljósmyndarann Spessa sem sagði frá myndinni bæði fyrir og eftir sýninguna.

Dagskránni verður haldið áfram kl. 16 í dag en þá verða sýndar stuttmyndir. Að þeim loknum munu nokkrir kvikmyndagerðarmenn sitja fyrir svörum úr sal en tveir þeirra hafa lagt leið sína frá Íran til þess að sækja hátíðina. Þá verður einnig sagt frá myndinni Huldufólk sem gerð er af íslenskum leikstjórum en í skóla í Þýskalandi.

kl. 18 verður sýnd pólska heimildarmyndin Pianoforte sem veitir innsýn í metnaðarfullan heim píanóleikara sem keppa í margrómaðri alþjóðlegri Chopin píanó-keppni sem haldin er á fimm ára fresti í Varsjá.

Kl. 20.  Verður íslenski ógnartryllirinn Eftirleikar sýndur í Ísafjarðarbíó sýnd og mun leikstjóri hennar Ólafur Árheim svara spurningum að sýningu lokinni. Á sama tíma verður sýnd kaupfélaginu Súðavík pólska gamanmyndin Horror Story eða hryllingssaga sem fjallar um ungan mann í starfsleit eftir útskrift sem uppgötvar að það er ekki eins auðvelt að fóta sig eftir útskrift og hann hélt. Leikstjóri myndarinnar Adrian Apanel svarar spurningum þar eftir sýninguna.

Lokasýning kvöldsins er svo mexíkóska framtíðardramað Itu Ninu sem hefst kl. 22. Allar nánari upplýsingar um dagskrá kvöldsins er að finna á piff.is.

Frá opuninni.

Myndir: Ómar Smári Kristinsson.

DEILA