Vikuviðtalið: Gunnar Davíðsson

Á Hestfjalli við Andakíl fyrir nokkrum dögum.

Gunnar Davíðsson er Þingeyringur sem fyrir rúmlega 40 árum flutti til Noregs til að stunda nám, en ílentist og hefur búið þar síðan. Gunnar er búsettur í Tromsö í norðurhluta Noregs og starfar við fylkesstjórn Troms fylkis, sem er fylki með um 170 þúsund íbúum.

Gunnar er sjávarútvegsfræðingur eða Master í fiskeri og havbruksvitenskap frá Háskólanum í Tromsö sem nú heitir Norges Arktiske Universitet.

Á menntaskólárunum í Menntaskólanum á Ísafirði, árin 1978-1982,  var Gunnar einn af stofnendum antisportistaklúbbs og lét lítið að sér kveða á vettfangi íþrótta. En honum snérist hugur þegar til Tromsö var komið og stundaði júdó af miklum móð, bæði sem keppandi og þjálfari í rúm 30 ár eða þar til hann ekki gat stundað þá íþrótt lengur vegna fingurkreppu (Dupuytrens). Hann kynntist þar stúlkunni, Marit Husmo, frá Náttlandi á Svartlandi sem er í norðurhluta Nordland fylkis, og sem seinna giftist honum og á með honum tvö börn, Lilju Marie og Björn Viljar. Börnin eru komin vel á legg og flutt að heiman, en stúlkan býr í Glasgow og hannar þar leikbúninga og saumar eftir nám í Queen Margret háskólanum í Musselburgh í Edinborg í Skotlandi. Drengurinn er hins vegar í iðnnámi í Kjöpsvík við Narvík, prosessindustri, framleiðslutækni í efnaiðnaði. 

Gunnar og Marit hafa verið tíðir gestir á Íslandi öll sín búskaparár, þó þau hafi verið búsett í Noregi, og koma til landsins tvisvar til þrisvar á ári. Þau eiga bústað í Borgarfirði þar sem þau dveljast á hverju sumri og stundum um jól og páska og ferðast þá gjarnan um landið með tjaldi, tjaldvagni eða hjólhýsi hin seinni ár.

Starf Gunnars við fylkesstjórn Troms felst í stjórnunarstörfum innan sjávarútvegsgreina, þar á meðal eldi. Fylkið sér meðal annars um meðferð á umsóknum um eldisleyfi í fylkinu, en um  250.000 tonn af laxi er framleidd í fylkinu árlega. Aðalstarf Gunnars er að hafa yfirumsjón með leyfisveitingum þessum og verkefnum sem styrkja og byggja upp þekkingu á þeim þáttum sem eldið bæði þarfnast og getur haft áhrif á, til að tryggja sjálfbærni framleiðslunnar eins og unnt er.

Eitt að aðaláhugamálum Gunnars er uppbygging eldis á Íslandi, og þá sérstaklega á æskuslóðum hans á Vestfjörðum. Hann er ötull talsmaður eldisins og vill gjarnan að sjá að sá hagvöxtur og uppbyggingu samfélags sem fylgir eldinu sem hann sjálfur hefur orðið vitni að í Norður-Noregi, geti átt sér stað fyrir vestan. Hefur Gunnar því tekið öllum boðum um að segja frá reynslu sinni og þekkingu, bæði fyrir vestan og eins á fundum og ráðtefnum um lagareldi á undanförum árum og áratugum. En síðastu tvö ár hefur hann setið i stjórn Lagarlífs, og hélt einmitt erindi um félagsleg áhrif fiskeldis í sveitarfélögum í Norður Noregi síðastliðinn miðvikudag á ráðstefnu um fiskeldi í Hörpu.

Þess má geta að Gunnar hefur um árabil reynt að komast yfir nokkrar spólur sem hann vantar í Megasarsafnið sitt.

DEILA