Ný kröfugerð ríkisins um eyjar og sker

Kortasjá af kröfum ríkisins í Ísafjarðardjúpi. Blár hringur er utan um svæði sem ríkið gerir kröfu til.

Í gær lagði fjármála- og efnahagráðsráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson f.h. íslenska ríkisins fram endurskoðaðar kröfur um hvað teljist þjóðlenda á svæði 12 sem eru eyjar og sker við landið. Óbyggðanefnd hefur auglýst kröfurnar og veitt landeigendum frest til 13. janúar 2025 til þess að lýsa sínum kröfum.

Áður hafði þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra Þórdís Kolbrún Gylfadóttir sent kröfulýsingu ríkisins 2. febrúar 2024. Tveimur mánuðum síðar 5. apríl tilkynnti ráðherrann að kröfurnar hefðu verið teknar til endurskoðunar.

Við endurskoðunina var rannsakað sérstaklega stórstraumfjöruborð og hvar það liggur á hverjum stað. Lagt var grundvallar að allt landsvæði innan ystu marka stórstraumsfjöruborðs meginlandsins teljist
vera utan svæðis 12 og þar með utan kröfulýsingar íslenska ríkisins.

Sömu sjónarmið voru lögð til grundvallar varðandi stórstraumsfjöruborð eyja sem teljast til eignarlanda, þ.e. allt landsvæði innan ystu marka stórstraumsfjöruborðs heimaeyju telst hluti heimaeyjunnar.

Hvað varðar kröfusvæðið í heild sinni, hefur lýstum kröfum í landfræðilegar einingar ofan sjávar fækkað úr rétt tæplega 2000 í rétt rúmlega 1000 segir í samantekt lögmanna íslenska ríkisins.

Grímsey og Borgarey verði þjóðlenda

Við fyrstu sýn er ekki að sjá að miklar breytingar hafi orðið á kröfugerð ríkisins á Vestfjörðum. Áfram er gerð krafa um að Grímsey á Steingrímsfirði og Borgarey í Ísafjarðardjúpi verði þjóðlenda. Sama á við um Djúphólma við Æðey.

Eins er óbreytt að ríkið lítur á Æðey, Vigur og Ögurhólma í Ísafjarðardjúpi sem einkalönd. Hrútey og Djúphólmi er einnig utan kröfu ríkisins. Til dæmis eru Árnesey, Drangey, Landeyjar Rifsker og Selsker í Árneshreppi einnig uan kröfugerðar ríkisins.

Breytingar eru líklega helst kröfur í sker ríkisins við eyjar í Breiðafirði og þá í þá veru að þeim fækki.

DEILA