Strandabyggð – Samþykkt hegðun

Merkileg uppákoma varð á sveitarstjórnarfundi 1369 í Strandabyggð sem haldinn var þriðjudaginn 8. október sl.  Undir fyrsta dagskrárlið var til afgreiðslu vantrauststillaga sem Matthías Lýðsson fyrsti maður á A lista lagði fram gegn Þorgeiri Pálssyni fyrsta manni á T lista, oddvita og sveitarstjóra í Strandabyggð. Vantrauststillöguna lagði Matthías fram eftir að Þorgeir Pálsson ítrekaði ásakanir sínar á hendur Jóni Jónssyni í bb.is á dögunum, en KPMG hafði þá skilað minnisblaði sem innihélt niðurstöðu úr yfirferð/rannsókn sem hreinsaði Jón af öllum þeim ásökunum sem Þorgeir hafði borið á hann. Þorgeir tók sem sagt ekki mark á niðurstöðum KPMG og hélt uppteknum hætti.

Engin umræða skapaðist um vantrauststillöguna á fundinum. Þess í stað lögðu tveir sveitarstjórnarmenn T lista fram eftirfarandi bókun: „Vegna hótana sem okkur hafa borist í kjölfar þessarar vantrauststillögu þá höfum við leitað meðal annars til lögfræðings sveitarfélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna réttarstöðu okkar í því sambandi. Það er ólíðandi að bakland A lista skuli leyfa sér svona framkomu við kjörna fulltrúa. Svona hegðun hefur mikil áhrif á okkar fjölskyldu og vini í ljósi þess í hversu litlu samfélagi við búum. Af þeim sökum mun ég Óskar Hafsteinn Halldórsson á næstu dögum biðjast lausnar undan mínum störfum í sveitarstjórn því ég get ekki tekið áhættuna á því hvernig verður komið fram við mína nánustu í framhaldi þess ef ég sit áfram í sveitarstjórn.”  Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir 2. maður á T lista skrifar undir bókunina ásamt Óskari Hafsteini Halldórssyni 3. manni á T lista. Ekki kemur fram um hverskonar hótanir sé að ræða né heldur um hvern/hverja er að ræða. Bara vísað til þess að aðilar úr “baklandi” A lista (hvernig er það svo skilgreint) hafi haft í hótunum við sveitarstjórnarmenn T lista. Á upptökum af fundinum sést að þeim er mikið niðri fyrir vegna þessa og er það alveg skiljanlegt, enginn vill verða fyrir hótunum (hvað þá lygum og röngum ásökunum eins og Jón hefur orðið fyrir). Sveitarstjórnarmenn A lista tóku undir með þeim sem lögðu bókunina fram að svona framkoma  væri ekki í lagi.

Svo hélt dagskrárliðurinn áfram, Þorgeir lagði fram sérbókun um eigið ágæta framferði og síðan var vantrauststillagan borin undir atkvæði. Skemmst er frá því að segja að tillagan var felld með 3 atkvæðum T lista á móti 2 atkvæðum A lista.

Af afgreiðslu þessa dagskrárliðar má draga tvær ályktanir. Annarsvegar að sveitarstjórnarmönnum öllum finnist ekki í lagi að kjörnum fulltrúum sé hótað og ég held að allir geti tekið undir það. Hinsvegar eru þarna skýr skilaboð frá sveitarstjórnarmönnum T lista að kjörinn fulltrúi, oddviti og sveitarstjóri getur borið fram lygar og rangar ásakanir á íbúa sveitarfélagsins án nokkurra afleiðinga. Þar höfum við það.

Andrea K Jónsdóttir, athafnakona

DEILA