Piff hefst í dag

Piff hefst með opnunarhátíð í Ísafjarðarbíói kl. 17 í dag. Þar gefst bíógestum tækifæri til að hitta erlent kvikmyndafólk sem mætt er til Íslands til að fylgja myndum sínum eftir. Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar mun svo formlega opna hátíðina. Boðið verður upp á léttar veitingar og heimagerðar snittur. Allir eru velkomnir bæði á opnunina og sýningarnar sem eru fríar.

Opnunarmynd hátíðarinnar verður svo sýnd kl. 18 en heimildarmyndin „Afsakið meðanað ég æli“ sem fjallar um tónlistarmanninn Megas. Myndin veitir 40 ára innsýn í uppreisnarmanninn, pönkrokkaran og fólkið sem hann vann með. Að myndinni lokinni mun Ísfirðingurinn Spessi (Sigurþór Hallbjörnsson), leikstjóri myndarinnar, segja aðeins frá myndinni og svara spurningum úr sal.

Kl. 20 hefst írska hryllingsmyndin „An Taibhse“sem fjallar um lífið eftir hungursneyðina milu á Írlandi. Sagan segir frá feðginunum Éamon og Máire sem taka að sér að viðhalda afskekktu georgísku stórhýsi yfir harðan vetur. Í fyrstu virðist sú ábyrgð vera friðsæl en það breytist fljótlega í skelfingu þegar óútskýranleg fyrirbæri byrja að gerast. ´An Taibhse´ er fyrsta hryllingsmyndin sem gerð hefur verið á írski forntungu.

Að sýningum lokinni verður haldið á skemmtistaðinn Húsið þar sem tónlistarmaðurinn Gummi Hjaltason mun sjá fyrir góðri stemningu.

Dagskrá hátíðarinnar og frekari lýsingar á myndunum má finna á piff.is.

DEILA