Þingmannafundur Norðvesturkjördæmis var haldinn í Edinborgarhúsinu fimmtudaginn 3. október. Þingmenn kjördæmisins Bergþór Ólason, Bjarni Jónsson, Eyjólfur Ármannsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Teitur Björn Einarsson voru þangað mættir til fundar með sveitarstjórnarfólki á Vestfjörðum.
Á fundinum var mikill þungi lagður á þau helstu mál sem þurfa að vera ofarlega í huga í störfum þingmanna kjördæmisins. Öryggismál á vegum og í jarðgöngum, forgagnsröðun og áætlanagerð í jarðgangnamálum, sem og vegagerð á Dynjandisheiði, Gufudalssveit og Strandavegi var allt tekið fyrir.
Þá var á svipuðum nótum rædd vetrarþjónusta Vegagerðarinnar á Vestfjörðum og hvernig stuttur opnunartími Vestfjarða hamlar uppbyggingu atvinnulífs og samfélaga.
Vakin var athygli á því enn á ný á því að einu auðlindagjöldin sem þjóðin hefur innheimt eru af sjávarauðlindinni, veiðigjöld og gjaldtaka af fiskeldi. Þetta þýðir að atvinnulíf og samfélög á Vestfjörðum greiða hátt hlutfall slíkra gjalda ef borið er saman við aðra landshluta vegna samsetningar atvinnulífs.
Nokkur umræða var um orkumál á fundinum. Athygli var vakin á að nokkrir möguleikar eru í vinnslu og mikilvægt er að fylgja þeim öllum eftir: Hvalá, Austurgil, Skúfnavötn, Hvanneyrardalur/Tröllárvirkjun, Kvíslártunguvirkjun og Vatnsdalsvirkjun. Tvöföldun Vesturlínu er jafnframt gríðarlega mikilvæg og þarf að hefja vinnu við þá áfanga sem nýtast strax svo sem tvöföldun línu frá Mjólká í Kollafjörð.
Óstaðbundin störf eru ekki að reynast vel á Vestfjörðum og oft svo að störf hafa frekar verið flutt af svæðinu en til þess. Rætt var um mikilvægi þess að efla starfsstöðvar stofnana á svæðinu þar sem niðurskurður hefur yfirleitt mest áhrif á starfsemi stofnana sem eru lengra frá höfuðborgarsvæðinu.
Niðurskurður er í framlögum til Náttúrustofa á sama tíma og krafa um auknar rannsóknir og að störf við eftirlit til dæmis í fiskeldi verði staðbundin á þeim svæðum þar sem eldið er stundað.