Lagarlíf: liðlega 700 manns á ráðstefnu um fiskeldi

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra flytur ávarp sitt.

Á áttunda hundrað manns eru skráðir á ráðstefnu Strandbúnaðar um eldi og ræktun sem hófst í Hörpu í gær og stendur fram eftir degi í dag. Félag um ráðstefnuna var stofnað 2016 er skráð á Ísafirði. Framkvæmdastjóri er Gunnar Þórðarson, Ísafirði.

Tilgangur félagsins er að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og styðja þannig við menntun, rannsóknir,  þróun og stefnumótun greinarinnar. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu.

Ráðstefnan var að þessu sinni flutt í Hörpu vegna vaxandi aðsóknar og að sögn Gunnars Davíðssonar, eins stjórnarmanna, hafa þátttakendur aldrei verið fleiri.

Jens Þórðarson, stjórnarformaður setti ráðstefnuna og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra flutti að því loknu ávarp.

Í gær voru flutt 25 erindi í fimm málstofum. Fjallað var um bæði landeldi og sjókvíaeldi, farið yfir áskoranir sem eldið glímir við svo sem umhverfismál og velferð og heilsu fiska. Erindi voru flutt um markaðsmál, eftirlit með eldinu og þróun eldisins og vaxtarmöguleika þess.

Stofnuð voru samtökin konur í eldi og leiddi Vestfirðingurinn Eva Dögg Jó­hann­es­dótt­ir stofn­un nýja fé­lags­ins.

Í dag verða einnig fimm málstofur með miklum fjölda erinda. Í einni málstofunni gera vestfirsku eldisfyrirtækin fimm grein fyrir starfsemi sinni.

Sigurður Jökull Ólafsson, stjórnarformaður Cruise Iceland, Guðrún Anna Finnbogadóttir, Vestfjarðastofu og Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð eru á ráðstefnunni.

Menntaskólinn á Ísafirði kynnir nám sitt tengt fiskeldinu á ráðstefnunni. Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari og Sigríður Gísladóttir, kennari við M.Í.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA