Fullkomlega óskiljanlegt

Tólf prósent kjósenda myndi greiða Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt ef gengið yrði til þingkosninga nú miðað við skoðanakönnun Prósents sem birt var í Morgunblaðinu um síðustu helgi. Á sama tíma myndu 18% kjósa Miðflokkinn. Þessi þróun hefur verið í gangi um hríð en þó einkum undanfarnar vikur þar sem ekki er hægt að segja annað en að fylgi Sjálfstæðisflokksins hafi hreinlega hrunið á skömmum tíma.

Vafalítið hefur sitthvað spilað inn í fylgishrun Sjálfstæðisflokksins en eitt mál hefur þó verið einna helzt áberandi undanfarnar vikur. Önnur tilraun Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra og varaformanns flokksins, til þess að reyna að koma frumvarpi í gegnum þingið sem myndi festa í lög að innleitt regluverk frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn yrði æðra innlendri lagasetningu.

Miðað við könnun Prósents sem birt var á mánudaginn eru 72% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins andvíg frumvarpi Þórdísar af þeim sem taka afstöðu með eða á móti. Hið sama er til dæmis að segja um stuðningsmenn Framsóknarflokksins þar sem hlutfallið er 66%. Mest er andstaðan í röðum stuðningsmanna Miðflokksins eða 79% sem hinir flokkarnir tveir hafa ljóslega misst mikið fylgi til undanfarnar vikur.

Verði frumvarp Þórdísar að lögum verður til ný forgangsregla í íslenzkum rétti. Ólíkt þeim forgangsreglum sem þegar eru fyrir hendi hér á landi þegar almenn lagasetning er annars vegar, þar sem yngri lög ganga fyrir þeim sem eldri eru og sértækari lög fyrir almennari, mun nýja reglan miðast við það eitt og aðeins eitt að um sé að ræða innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn.

Ekki var hægt að ganga lengra

Með frumvarpinu stendur til að breyta því fyrirkomulagi sem notað var varðandi innleiðingu bókunar 35 við EES-samninginn þegar hann var lögfestur fyrir rúmum 30 árum síðan sem var ætlað að sjá til þess að málið bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Ófáir lögspekingar hafa bent á það að bókunin standist ekki stjórnarskrána þar sem hún kveði á um framsal löggjafarvalds sem sé ekki heimilt samkvæmt henni.

Til að mynda má nefna skrif Markúsar Sigurbjörnssonar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, í afmælisriti EFTA-dómstólsins árið 2014 þar sem hann benti á að einföld ástæða væri fyrir því að bókun 35 hefði verið innleidd með þeim hætti sem raunin varð, með 3. grein laga um Evrópska efnahagssvæðið, þó hvergi væri þar minnst á forgang regluverks. Bókun 35 sem slík bryti einfaldlega í bága við stjórnarskrána.

„Staðreyndin er hins vegar sú að ekki var mögulegt að ganga lengra innan þess ramma sem stjórnarskrá Íslands setur. Stjórnarskráin gerir hvorki ráð fyrir því að takmarka megi fullveldi lýðveldisins með framsali löggjafarvalds til alþjóðastofnana né að landslög, sem byggjast á alþjóðlegum skuldbindingum eins og EES-samningnum, geti eingöngu af þeim sökum öðlast ríkari stöðu en önnur almenn löggjöf,“ segir Markús.

„Með öðrum orðum gerir stjórnarskráin ekki ráð fyrir því að árekstur á milli ákvæða almennra laga verði leystur með öðrum hætti en beitingu viðurkenndra lögskýringarreglna og veitir löggjafanum hvorki vald né svigrúm til þess að veita tilteknum almennum lögum alfarið forgang gagnvart öðrum.“ Ólíkt gildandi forgangsreglum myndi nýja reglan ná til tiltekinna laga en ekki einungis aldurs og eðlis þeirra óháð uppruna.

Jól Miðflokksins koma snemma

Margir aðrir lögspekingar hafa sem fyrr segir lýst sömu eða hliðstæðum sjónarmiðum í gegnum tíðina. Þar á meðal Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor og helzti sérfræðingur landsins í Evrópurétti, og Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari. Sömuleiðis Björn Þ. Guðmundsson lagaprófessor og Guðmundur Alfreðsson, sérfræðingur í þjóðarétti, í aðdraganda lögfestingar EES-samningsins.

Mjög langur vegur er einfaldlega frá því að helztu lögspekingar landsins séu einróma í þeirri afstöðu að rétt sé að frumvarp Þórdísar verði að lögum þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Þvert á móti er ljóst að málið er og hefur verið afar umdeilt í röðum þeirra. Það var einfaldlega ekki að ástæðulausu að bókun 35 var innleidd með þeim hætti sem raunin varð. Annars hefðum við ekki orðið aðilar að EES-samningnum.

Fullkomlega óskiljanlegt er að keyra eigi frumvarp Þórdísar í gegnum Alþingi þegar fyrir liggur að mikil andstaða er við það ekki sízt í röðum okkar sjálfstæðismanna. Ekki getur beinlínis talizt skynsamlegt fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins að fara í slag við sitt eigið fólk á kosningavetri og þegar fylgi streymir í ofanálag frá flokknum miðað við kannanir. Eða eins og einn sagði við mig: Jól Miðflokksins koma snemma.

Hins vegar er leið út úr þessum aðstæðum. Taka aftur upp varnir í málinu eins og gert var árum saman þar til því var skyndilega hætt án skýringa. Færi málið fyrir EFTA-dómstólinn lægi niðurstaða ekki fyrir fyrr en eftir kosningar. Málið verður ekki verra en með þeirri fyrirfram uppgjöf sem felst í frumvarpinu. Með dómstólaleiðinni yrðu stjórnarflokkarnir skornir úr snörunni og möguleiki yrði á hagfelldri niðurstöðu.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

DEILA