Fulltrúar Byggðastofnunar heimsóttu Vestfirði

Frá heimsókn í Vesturbyggð. Frá vinstri, aftari röð: Arnar Már Elíasson, Reinhard Reynisson, Tryggvi B. Bjarnason, Páll Vilhjálmsson, Elfar Steinn Karlsson og Geir Gestsson. Fremri röð frá vinstri: Sigríður Elín Þórðardóttir, Gerður Björk Sveinsdóttir, Gunnþórunn Bender og Jenný Lára Magnadóttir.

Arnar Már Elíasson forstjóri, Sigríður Elín Þórðardóttir forstöðumaður þróunarsviðs og Reinhard Reynisson sérfræðingur byrjuðu á því að heimsækja sveitarstjórn Reykhólahrepps þriðjudaginn 24. október þar sem ýmis mál bar á góma, þar á meðal húsnæðismál, aðgengi að heitu vatni, almenningssamgöngur, verslun í dreifbýli og fleira.

Seinna í sömu viku samþykkti stjórn stofnunarinnar svo að hefja aðildaviðræður við sveitarfélagið að verkefninu Brothættar byggðir.

Á miðvikudag kom þríeykið til fundar í Vesturbyggð og hitti á fjölmennan hóp sveitarstjórnarfólks.  Þar kom Aflamark Byggðastofnunar sérstaklega til umræðu auk óstaðbundinna starfa, ýmissa styrkja úr byggðaáætlun og lánveitinga.

Á fimmtudag mætti stjórn Byggðastofnunar til stjórnarfundar í húsakynnum Vestfjarðastofu á Ísafirði auk þess að funda þar með fulltrúum stofunnar, þeim Sigríði Ó. Kristjánsdóttur framkvæmdastjóra og Aðalsteini Óskarssyni sviðsstjóra byggðamála, um málefni Vestfjarða.

Á föstudag áttu svo Arnar Már og Sigríður Elín góðan fund með Braga Þór Thoroddsen, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps. 

Til umræðu voru  lánveitingar, styrkveitingar, gangnagerð, húsnæðisvandi og fjölmenning auk annars.

DEILA