Jón Jónsson: ósannindi sveitarstjóra Strandabyggðar

Jón Jónsson.

Jón Jónsson fyrrv. sveitarstjórnarmaður í Strandabyggð segir viðbrögð Þorgeirs Pálssonar, sveitarstjóra í Strandabyggð í Bæjarins besta við niðurstöðum KPMG vera til marks um að hann misskilji skýslu KPMG algerlega og svo segi í ofanálag ósatt um fundargerð sveitarstjórnar frá 2021. Þar komi nákvæmlega ekkert fram um styrkveitingar og greiðslur upp á 61 milljón til Jóns Jónssonar. Hins vegar sé þar að finna upplýsingar um kostnað við samstarf Strandabyggðar og Strandagaldurs um rekstur Upplýsingamiðstöðvar í áratug og annan stuðning sveitarfélagsins við Strandagaldur og Sauðfjársetrið.

Í færslu á Facebook fer Jón yfir þessi mál frá sínum sjónarhóli og segir þar: „Það vekur athygli að Þorgeir segir ekki aðeins ósatt um greiðslur á milljónatugum til mín persónulega, heldur segir hann líka að þær upplýsingar séu komnar frá skrifstofustjóra og sveitarstjórninni sem þá sat. Það er ekki satt, Salbjörg skrifstofustjóri og fulltrúar í gömlu hreppsnefndinni eru vandað og heiðarlegt fólk sem hefur aldrei sakað mig um sjálftöku fjármuna úr sveitarsjóði. Stundum er rétt að hafa staðreyndirnar með.“

Jón fer svo yfir málavöxtu á umræddu tímabili:

Í skýrslunni eru upplýsingar um tímalínuna um setu í hreppsnefnd og stjórnum menningarstofnana sem afsanna þessar lygar. Ég ætla að setja tímalínuna hér fram með aðeins aðgengilegri og nákvæmari hætti: 

# 2000-2007 – sat í stjórn Strandagaldurs

# 2002-2007 – sat í stjórn Félags áhugamanna um Sauðfjársetur á Ströndum

# júní 2010 – júní 2014 – sat í sveitarstjórn Strandabyggðar eftir listakjör

# maí 2018 – maí 2022 – 4. varamaður í sveitarstjórn Strandabyggðar eftir persónukjör, sat sex sveitarstjórnarfundi sem slíkur

# ágúst 2019 – janúar 2020 og maí 2021 – maí 2022 – aðalmaður í sveitarstjórn Strandabyggðar vegna forfalla

# nóv 2018 – maí 2024 – aftur í stjórn Strandagaldurs, eftir að Sigurður Atlason féll frá allt of snemma.

Sat alls ekki beggja vegna borðs

Jón segir: „Það kemur skýrt fram í skýrslunni að ég sat alls ekki beggja vegna borðs, í langflestum af þeim tilvikum sem eru samt tekin til skoðunar. Það á eingöngu við um tímann í hreppsnefnd 2019-2022 og setuna í stjórn Strandagaldurs á sama tíma. Þrátt fyrir það sýndi ég bæði þá og áður þá fagmennsku að víkja ávallt af fundum og tók aldrei þátt í umræðum um stuðning við þessar stofnanir. Það á sér sögulegar skýringar, vegna þess að ég kom þeim á laggirnar með mörgu öðru góðu fólki á sínum tíma. Eins var kona mín framkvæmdastjóri Sauðfjárseturins 1. jan. 2012 til 30. sept. 2024.

Það kemur líka skýrt fram að ég sjálfur og fyrirtæki í minni eigu hafa aðeins fengið einn styrk frá sveitarfélaginu síðustu áratugi, 80 þús í ljósmyndaverkefni vorið 2018. Þá var ég ekki í hreppsnefnd.

Ég er mjög ánægður með niðurstöðu skýrslu KPMG, en á þó eftir að spyrja nánar út í þessa áherslu þeirra á stuðning við Sauðfjársetrið og Strandagaldur í gegnum tíðina í skýrslunni, jafnvel á tímabilum þar sem ég var hvorki í stjórn þeirra né í sveitarstjórn.“

Þá birtir Jón tvö skjöl um aðkomu hans annars vegar að sauðfjársetrinu á Ströndum og hins vegar að Strandagaldri.

DEILA