Vestri vann Fram og Andri Rúnar með þrennu

Andri Rúnar fagnar fyrsta marki sínu gegn Fram í gær.

Knattspyrnulið Vestra í Bestu deild karla gerði góða ferð í Úlfársdalinn í gær í keppni liða í neðri hluta deildarinnar og vann öruggan sigur með fjórum mörkum gegn tveimur. Framherjinn Andri Rúnar Bjarnason sýndi sínar bestu hliðar og skoraði þrjú mörk.

Búnar eru þrjár umferðir af fimm í þessari sérstöku keppni neðri huta deildarinnar og hefur Vestri unnið tvo af þeim og gert eitt jafntefli. Samtals hafa þessir þrír leikir gefið sjö stig og Andri Rúnar hefur gert fimm mörk í leikjunum þremur.

Liðin keppa um að forðast fall úr deildinni, en tvö neðstu liðin munu falla niður í Lengjudeildina. Þegar Bestu deildinni lauk eftir 22 umferðir var Vestri í fallsæti og hefði fallið ef keppninni hefði lokið þá.

En nú er staðan orðin mun vænlegri fyrir Vestra. Liðið er komið upp úr fallsæti og er með 25 stig.

HK og Fylkir eru í fallsætunum og er Fylkir þegar fallið eftir úrslit gærdagsins þrátt fyrir að tvær umferðir séu enn eftir.

Vestri hefur þrjú stig umfram HK og dugar að vinna annan leikinn sem eftir til þess að halda sæti sínu í deildinni.

KA, Fram og KR hafa tryggt sæti sitt í Bestu deildinni og eftir stendur að baráttan stendur á milli HK og Vestra um að forðast fallið.

Vestri leikur á Akureyri við KA eftir tvær vikur og fær svo Fylki í heimsókn viku seinna til Ísafjarðar í lokaumferðinni.

Eftir gott gengi Vestra í síðustu þremur leikjum er útlitið orðið vænlegt fyrir Vestra.

DEILA