Alþingi: fyrirspurn um öryggiskröfur í jarðgöngum og forgangsröðun

Sigurjón Þórðarson.

Sigurjón Þórðarson, varaþingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi hefur lagt fram á Alþingi fyrrspurn til  innviðaráðherra um öryggiskröfur í jarðgöngum.

Fyrirspurnin er í átta liðum og m.a. spurt um flóttaleiðir í súrefnisrými í Vestfjarðagöngum og um áhættumat og viðbragsáætlanir í göngunum. Þá spyr Sigurjón um það hvort eldsvoðinn í rútu í Tungudal verði til þess að forgangsröðun jarðganga verði endurskoðuð og hvort horft verði til breikkunar Vestfjarðaganga á báðum einbreiðum leggjum.

1.      Er kröfum reglugerðar um öryggiskröfur fyrir jarðgöng, nr. 895/2021, fylgt eftir og þær uppfylltar, t.d. að því er varðar öryggi vegfarenda í jarðgöngum, m.a. vegna eldsvoða? Hvernig hefur eftirliti skv. 8. gr. reglugerðarinnar verið háttað?
2.      Fer fram skráning á því hvort um er að ræða umferð þungaflutninga, farþegaflutninga eða olíuflutninga um Vestfjarðagöng?
3.      Hvaða reglur gilda um olíuflutninga í jarðgöngum?
4.      Er flóttaleið í súrefnisrými í Vestfjarðagöngum, sbr. Hvalfjarðargöng?
5.      Hafa áhættumat og viðbragðsáætlanir í Vestfjarðagöngum við eldsvoða þar tekið mið af súrefnisskorti, flóttaleiðum og möguleikum viðbragðsaðila til björgunaraðgerða í einbreiðum hluta ganganna?
6.      Eru klæðningar innan á gangaveggjum Vestfjarðaganga viðurkenndar í dag til notkunar hvað varðar bruna og eldsmat? Ef ekki, hvað vantar á svo að Vestfjarðagöng stæðust kröfur til sambærilegra ganga sem gerð eru í dag?
7.      Fengjust Vestfjarðagöng viðurkennd lögleg miðað við kröfur EES-staðla í dag?
8.      Verður forgangsröðun jarðganga endurskoðuð vegna eldsvoða í rútu utan við Vestfjarðagöng og horft til breikkunar samhliða á báðum einbreiðu leggjum Vestfjarðaganga?

DEILA