7,3 milljarðar kr. í ný hlutdeildarlán

Opnað hefur verið að nýju fyrir umsóknir um hlutdeildarlán hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa til boða fyrir fyrstu kaupendur og þau   sem ekki hafa átt íbúð sl. fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Lánunum er því ætlað að auðvelda fólki að brúa bilið við fasteignakaup og komast inn á húsnæðismarkaðinn.

Á þessu ári eru 7,3 milljarðar króna til úthlutunar, en það sem af er ári hefur HMS úthlutað 3,3 milljörðum króna til 265 íbúða. Á næstu vikum verður opnað fyrir þriðju úthlutun stofnframlaga 2024.

Hlutdeildarlán eru veitt fyrir allt að 20% kaupverðs og þarf lántaki   að reiða fram a.m.k. 5% í formi eigin fjár. Lánin eru ólík öðrum lánum að því leyti að ekki eru um að ræða mánaðarlegar greiðslur eða vexti heldur er lán greitt til baka eftir 10-25 ár eða við sölu íbúðar. 

Hjon með tvö börn mega hafa 16,8 m.kr. árstekjur

Þá hefur Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra undirritað reglugerð um hækkun á tekjumörkum vegna hlutdeildarlána.

  • Hámarkstekjur einstaklings geta numið allt að 9.465.000 kr. miðað við sl. 12 mánuði.
  • Hámarkstekjur hjóna eða sambýlisfólks eru kr. 13.221.000 kr. miðað við sl. 12 mánuði.
  • Viðbót við þessi tekjumörk vegna hvers barns eða ungmennis sem er undir 20 ára aldri og er á framfæri umsækjanda eða býr á heimilinu er 1.805.000 kr.

Þá er heimilt að veita allt að 30% hlutdeildarlán til einstaklinga með lægri tekjur en 6.283.000 kr. á ári eða til hjóna eða sambúðarfólks með samanlagt lægri tekjur en 8.789.000 kr. á ári miðað við síðastliðna 12 mánuði. Við þær tekjur bætast 1.953.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem er á framfæri umsækjanda eða býr á heimilinu.

DEILA