Reykhólar: hafnarframkvæmdir á lokastigi

Nýja þekjan á höfninni. Mynd: Hrafnkell Guðnason.

Í marsmánuði var tekið tilboði Geirnaglans ehf í nýja þekju og lagnir á höfninni á Reykhólum. Tvö tilboð bárust og var tilboð Geirnaglans ehf lægra eða 96,3 m.kr. en þó 18,4% yfir áætluðum verktakakostnaði.

Verkið hefur gengið vel og er á lokametrunum að því er greint er frá vef Reykhólahrepps. Þörungaverksmiðjan fékk að setja aukalagnir á sinn kostnað í skurðina, rafmagnskapal til að gera ráð fyrir rafvæðingu skips ásamt heitu og köldu vatni. Reykhólahreppur færði og bætti við nokkrum ljósastaurum á vegspottann milli verksmiðju og bryggju.

Skoða þarf hvað skal gera varðandi krana á höfninni þegar þessum framkvæmdum lýkur, kraninn sem stendur á höfninni er ónýtur og hefur verið innsiglaður af Vinnueftirlitinu.

Verkinu á að vera lokið í lok nóvember næstkomandi og lýkur þar með endurbótum á höfninni í Karlsey sem munu kosta liðega 300 m.kr. þegar upp verður staðið. Ríkissjóður greiðir 90% kostnaðar og sveitarfélagið 10%.

Sumarið 2022 urðu verulegar skemmdir á höfninni þegar þáverandi bryggja hrundi í sjóinn. Var í framhaldinu hafist handa við endurbæturnar.

DEILA