Jón Jónsson: staðfestir að ásakanir voru ósannar

Jón Jónsson.

„Ég er afar ánægður með hvað niðurstaðan í skýrslunni er í raun afgerandi. Með þessari úttekt KPMG er staðfest að ásakanir oddvitahjónanna, Þorgeirs Pálssonar og Hrafnhildar Skúladóttur, um sjálftöku mína á fjármunum úr sveitarsjóði eru beinlínis ósannar. Ásakanir úr þessari átt hljóta auðvitað að vekja athygli, þau eru lykilstarfsfólk Strandabyggðar, sveitarstjóri og íþrótta- og Tómstundafulltrúi. Það er gott að fá þetta á hreint. Eins kemur skýrt fram að ég hef ekki gerst brotlegur við sveitarstjórnarlög, samþykktir og siðareglur, í störfum mínum í sveitarstjórn, eins og ítrekað hefur verið dylgjað um.“

Þetta segir Jón Jónsson á Kirkjubóli í Tungusveit og fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í Strandabyggð sem var ásakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína til þess að fá fé úr sveitarsjóði.

Sveitarstjórnin fékk KPMG til þess að gera úttekt á málinu og er niðurstaðan sú að „Ekki er annað að sjá en greiðslur til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirætkja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetur, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e á árunum 2010-2014 og 2019-2022 hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar.

Einnig er ekki annað að sjá en Jón hafi gætt þess sem fulltrúi í sveitarstjórn að víkja sæti þegar framangreindir samningar voru til umfjöllunar.“

„Ég hef satt best að segja verið dálítið dapur yfir því hvað rógburðurinn hefur átt greiða leið að fólki, hvað slúðursögurnar hafa farið á mikið flug í samfélaginu. Ég vona að breytingar verði á þessu í framtíðinni, að Strandafólk verði kannski ekki alveg jafn opið fyrir svona lygaþvælu.“  

Jón segir að sveitarstjórnin taki skýrsluna til umfjöllunar á fundi sínum á þriðjudaginn í næstu viku og segir það verða fróðlegt að sjá viðbrögðin.

DEILA