Patreksfjörður: nýr vegarkafli á Örlygshafnarvegi

Teikning af fyrirhuguðu vegarstæði.

Vegagerðin hefur sótt um framkvæmdaleyfi fyrir nýjum 4,0 km löngum vegarkafla á Örlygshafnarvegi frá frá Hvalskeri að Sauðlauksdal. Erindinu fylgir samþykki landeigenda Hvalskers en auk þess liggur nýi kaflinn um land Sauðlauksdals. Umsóknin er dagsett í mars síðastliðnum og segir Vegagerðin þá að fyrirhugað sé að framkvæmdir hefjist vorið 2024 og verði lokið að fullu 1. október 2025.

Nýi vegurinn kemur til með að vera 6,5 metra breiður og verður með bundnu slitlagi. Ársdagsumferðin um veginn 2023 var um 170 bílar/sólarhring, þar sem sumarumferðin var um 415 bílar en vetrarumferðin aðeins 18 bílar á sólarhring.

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar tók málið fyrir í vikunni og leggur til við heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og fyrrum Rauðasandshrepps að erindið verði samþykkt og að skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd um Örlygshafnarveg: Hvalsker – Sauðlauksdalur þegar jákvæð umsögn Minjastofnunar og Umhverfisstofnunar liggur fyrir.

DEILA