Bolungavík: Brák yfirtekur leigíbúðir

Vitastígur 1 og 3. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Brák íbúðafélag hefur með samningi við Skýli hses yfirtekið 14 leiguíbúðir á Vitastíg 1 -3 í Bolungavík. Bæjarráð Bolungavíkur hefur heimilað þessa tilfærslu. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ríkisins þarf jafnframt að heimila sölunni á hliðstæðan hátt.

Á sínum tíma lögðu Bolungavíkurkaupstaður og ríkið fram 30% í stofnframlag þegar ákveðið var að breyta húsnæðinu í leiguíbúðir.

Brák íbúðafélag hses. er húsnæðissjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2022 af sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins í þeim tilgangi að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum húsnæðissjálfseignastofnunum með fáar íbúðir í rekstri. Stofnendur Brákar eru nú orðnir 31 sveitarfélag. Brák er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna.

Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri segir að hans mat sé að þetta skref sé „jákvætt fyrir Bolungarvík og gefur okkur fleiri tækifæri til að hlúa að uppbyggingar á fasteignamarkaði í Bolungarvík í framtíðinni. Uppbygging fasteignamarkaðar í Bolungarvík er mikilvægt verkefni sem bæjarstjórn Bolungarvíkur er einhuga í að styðja við með öllum mögulegum ráðum.“

DEILA