Styðjum Árneskirkju

Ný sóknarkirkja í Árnesi á Ströndum var vígð fyrir 33 árum síðan. Arkitekt kirkjunnar var Guðlaugur Gauti Jónsson en yfirsmiður var Arinbjörn Bernharðsson frá Norðurfirði.

Árneskirkja er stálgrindarhús á steyptum grunni, klædd hvítum Steni-plötum að utan en viðarþiljuð að innan. Þakið er járnklætt. Flatarmál kirkjunnar er um 150 fermetrar. Kirkjuskipið er ferningslaga og vísa horn kirkjuskipsins í höfuðáttirnar. Altarið er eins og vera ber í horninu mót austri. Góð lofthæð er yfir altari og hljómburður mjög góður enda steinn á gólfi en timbur í lofti. Útlit kirkjunnar tekur mið af Reykjaneshyrnu, sem sést frá kirkjunni.

Nú er svo komið að þetta einstaka og fallega guðshús þarfnast sárlega viðhalds. Járnið á þakinu er farið að ryðga vegna sjávarseltu, sem stormar hafsins feykja upp á land.  Söfnuðurinn er hins vegar fámennur og gjaldendur sóknargjalda eru einungis 35. Opnaður hefur verið söfnunarreikningur vegna viðgerða á þakinu. Öll þau, sem geta lagt Árneskirkju lið, eru hvött til að leggja aur inn á reikning nr. 1161 – 05 – 000096 undir kennitölunni 430169-1149. Öll framlög stór og smá eru vel þegin.

Ef gjöf til kirkjunnar er krónur tíu þúsund eða meira þá fæst skattaafsláttur því Árneskirkja er á Almannaheillaskrá hjá Skattinum. Stöndum saman og styðjum Árneskirkju.

Magnús Erlingsson, prófastur.

Árneskirkja.

DEILA