Drög að samkomulagi við Hendingu

Mynd úr safni og tengist efni fréttarinnar óbeint

Á fundi bæjarráðs 19. desember lagði Gísli H. Halldórsson bæjarstjóri fram drög að samkomulagi við Hestamannafélagið Hendingu en um árabil hefur verið ágreiningur milli hestamannafélagsins og sveitarfélagsins vegna landspildu í Hnífsdal í eigu Hendingar sem ónýttist vegna jarðgangagerðar. Þar fór forgörðum skeiðvöllur Hendingar og hafa þeir nú byggt upp að hluta til nýja aðstöðu í Engidal.

Í ágúst 2008 segir frá því að Ísafjarðarbær hafi lagt fram tvær bótatillögur sem félagsmenn Hendingar felldu með öllum greiddum atkvæðum og undirbúningur hafinn til málsóknar á hendur Ísafjarðarbæ. Í október ári seinna segir Marinó Hákonarson, formaður Hendingar að óháð mat á tjóni félagsins sé metið á 46,5 milljónir króna, félagsmenn séu nú búnir að missa þolinmæðina og hafi ráðið sér lögfræðing. Í maí í fyrra situr allt við sama keip og krafa Hendingar nú komin upp í 84 milljónir.

Vegagerðin hefur verið tilbúin til greiðslu bóta frá byggingu ganganna sem felast í greiðslu 20 milljóna til Ísafjarðarbæjar og þar til nú verið talið ekki væri hægt að ganga frá þeirri greiðslu fyrr en frágengnu samkomulagi milli Hendingar og Ísafjarðarbæjar. Að sögn Gísla Halldórs virðist nú liggja fyrir að hægt er að ganga frá samkomulegi við Vegagerðina og greiðslu bótanna óháð niðurstöðu í ágreiningsefnum milli sveitarfélagsins og hestamannafélagsins.

Nú virðist hilla undir samkomulag ef marka má minnisblað bæjarstjóra frá 19. desember og bókun bæjarráðs í gær: „Lögð fram drög að samkomulagi milli Vegagerðarinnar og Ísafjarðarbæjar um greiðslu fullnaðarbóta vegna byggingar Bolungarvíkurganga, þ.á.m. vegna skerðingar á aðstöðu Hestamannafélagsins Hendingar að Búðartúni í Hnífsdal.“ Þarna er um að ræða samningur um bótagreiðslu Vegagerðarinnar til Ísafjarðarbæjar, niðurstaða bótagreiðslu Ísafjarðarbæjar til hestamannafélagsins liggur ekki ennþá fyrir.

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Jónas Þór Birgisson, lét bóka sérstaka ánægju með lyktir máls og þá sérstaklega að þær hafi verið á sömu nótum og lagt var upp með árið 2013.

bryndis@bb.is

10. janúar kl. 14:20 frétt uppfærð
Ábending hefur borist um að við atkvæðagreiðslu um bótatillögur árið 2008 hafi þær verið naumlega felldar, ekki með öllum greiddum atkvæðum og fram kemur í þessari frétt og í frétt sem birtist í ágúst 2008.

DEILA