Geðlestin í Gulum september – Safnaðarheimili Patreksfjarðarkirkju

Í tilefni af Gulum september ætla landssamtökin Geðhjálp að ferðast um landið og bjóða upp á samtal um geðrækt og geðheilsu í bland við tónlist og gleði. Geðlestin er heiti verkefnisins en það hefur áður farið um landið en þá var áherslan á börn og ungmenni en núna er ætlunin að hitta sveitarstjórnir, félags- og skólamálayfirvöld annars vegar og almenning hins vegar. Í tilkynningu samtakanna segir að þau hitti sveitarstjórnir og félags- og skólayfirvöld í hádeginu en almenning á kvöldfundum.

Mánudaginn 30. september verður Geðhjálp á ferðinni á Vestfjörðum. Í hádeginu með sveitarfélögum við Ísafjarðardjúp en um kvöldið kl. 20:00 á Pareksfirði í safnaðarheimili

Á hádegisfundinum kynnir Geðhjálp ýmsa geðheilsuvísa (mælikvarða), fjallar um mikilvægi geðræktar, hvernig draga megi úr fordómum og mögulegar leiðir til þess að efla forvarnir. Markmiðið er einnig að eiga samtal við heimafólk og hvað helst brennur á því í tengslum við geðrækt og geðheilbrigði. 

Kvölddagskrá er aðeins öðruvísi sett upp. Hún hefst á stuttri kynningu á Geðhjálp og starfi samtakanna. Eftir það verður farið yfir mikilvægi reglulegrar geðræktar út lífið og ýmsar leiðir þar nefndar. Þá mun einstaklingur segja frá sinni reynslu af geðrænum áskorunum og hvernig bata var náð og hvaða verkfæri hafa reynst best. Eftir reynslusöguna verða umræður/samtal. Í lokin stíga þeir félagar Emmsje Gauti og Þormóður á svið og leika nokkur lög til að árétta að geðrækt er líka gleði og skemmtun. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir. Gert er ráð fyrir að kvöldfundurinn standi í 80 til 90 mínútur.


DEILA