Sveitarstjórn Reykhólahrepps ákvað á síðasta fundi sínum breytingar á starfsemi mötuneytis. Miðlægt mötuneyti verður lagt niður og þess í stað verða tvö sjálfstætt starfandi mötuneyti sett á laggirnar. Hjúkrunarheimilið mun reka eigið mötuneyti með matráð sem sinnir innkaupum, skipuleggur matseðla og sér um allt almennt skipulag mötuneytisins. Leikskóli og skóli mun sömuleiðis reka eigið mötuneyti, ráða til sín matráð sem gegnir sambærilegu starfi og matráður hjúkrunarheimilis.
Sveitarstjórnin segir í bókun að með þessari breytingu á skipulagi mötuneytis skapist skýrari grundvöllur fyrir skilgreiningu starfa og hægt verði að mæta þörfum beggja stofnannna með betri hætti og sú þjónusta sem mötuneytin eiga að veita verði tryggð frekar.
Tildrög málsins eru að Reykhólahreppur óskaði eftir aðstoð Attentus- mannauður og ráðgjöf ehf., vegna samskiptavanda á milli Mötuneytis Reykhólahrepps og þeirra stofnana sem mötuneytið þjónustar. Attentus framkvæmdi úttekt á starfsemi og samskiptum með því að taka viðtöl við starfsfólk mötuneytisins og stjórnendur sem nýta sér þjónustu þess. Í kjölfarið fór fram greining á starfsemi og lagðar voru fram tvær tillögur til úrbóta og aukinnar skilvirkni í rekstri. Tillaga tvö er nánar skýrð og útfærð í minnisblaði dags. 10. september 2024 sem Attentus tók saman fyrir fund sveitarstjórnar.