Rányrkju bílastæðafyrirtækja á ferðamannastöðum

Meðfylgjandi er kort sem sýnir staðsetningu þeirra ferðamannastaða þar sem borga þarf fyrir að leggja bíl.

Í frétt á vefsíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) er sagt frá því að á meira en 30 áfangastöðum ferðamanna víða um land eru að jafnaði rukkaðar 1.000 kr. fyrir að leggja bíl.

Ef ekki er gengið frá greiðslu samdægurs fær bíleigandinn senda kröfu um 4.500 kr. vangreiðslugjald til viðbótar. Á flestum þessara staða er nýlega byrjað að rukka fyrir bílastæði sem áður voru gjaldfrjáls, án þess að nokkuð hafi breyst sem útskýrir eða réttlætir gjaldtökuna.

FÍB hefur fengið fjölmargar kvartanir vegna bílastæðainnheimtunnar. Kvartað er undan þeim skamma tíma sem ferðarfólki er gefinn til að greiða fyrir bílastæði, ruglingshættu milli bílastæða, einokun á greiðsluleiðum og óútskýrðum háum vangreiðslukröfum.

Kvartað er undan því að á óskipulögðum malarstæðum er sama 1.000 kr. gjald tekið og á þeim örfáu bílastæðum sem eru til fyrirmyndar og bjóða upp á salernisaðstöðu.

Að mati FÍB er gjaldtaka á bílastæðum á ferðamannastöðum gengin út í öfgar, ekki síst með háum vangreiðslugjöldum. Tala má um rányrkju í ljósi þessara ósanngjörnu viðskiptahátta.

Þarna eru lóðarhafar, landeigendur og bílastæðafyrirtæki að fénýta sér aðkomu að náttúrperlum. Einatt er fullyrt að fjármunirnir fari í uppbyggingu aðstöðu. Svo virðist vera í einstaka tilfellum, en víðast hvar er meint uppbygging í engu samræmi við gjaldtökuna.

DEILA