Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í könnunarflug yfir Vestfirði í morgun þar sem leitað var að hvítabjörnum en í síðustu viku gekk hvítabjörn á land á Höfðaströnd í Jökulfjörðum þar sem hann var felldur.
Þyrlan fór af stað klukkan 10 í morgun og sótti lögreglumann á Ísafjörð og fór svo í leit í Grunnavík, Jökulfjörðum og um Hornstrandir allt að Bjarnarfirði til að ganga úr skugga um að ekki væru fleiri hvítabirnir á ferðinni og reyndist svo ekki vera.