Háskólasetur Vestfjarða er hluti af verkefninu „Green Meets Blue“, sem er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt.
Verkefnið verður undir forystu Nordregio og eru Háskólasetur Vestfjarða og Háskóli Hálanda og eyja í Skotlandi samstarfsaðilar í verkefninu.
Matthias Kokorsch, fagstjóri hjá Háskólasetri er verkefnisstjóri fyrir íslenska hluta verkefnisins. Aðstoðarmenn eru Rebecca og Tabea, sem báðar eru meistaranemar við Háskólasetur, ásamt Maria Wilke sem er fyrrverandi meistaranemi og kennari við Háskólasetur Vestfjarða og skrifaði doktorsverkefni um hafskipulag.
Norrænu löndin hafa sett sér metnaðarfull markmið um loftslags- og orkumál, þar sem endurnýjanleg orka á hafi úti gegnir lykilhlutverki í grænu umskiptunum en henni fylgja einnig áskoranir, þar með talið skörun við aðrar atvinnugreinar eins og sjávarútveg og fiskeldi.