Drimla: metslátrun í gær – 150 tonn – útflutningsverðmæti 150 – 180 m.kr.

Kubbur Ísafirði sér um flutninga á laxinum í skip og bílar fyrirtækisins eru merktir þessari fallegu ynd af Óshyrnunni og klettinum Þuríði. Mynd: Baldur Smári Einarsson.

Met var slegið í laxasláturhúsinu Drimlu í Bolungavík í gær. Starfsmenn Arctic Fish tóku á móti 150 tonnum til slátrunar og kláruðu það fyrir kvöldmat. Kristján Rúnar Kristjánsson framkvæmdastjóri Drimlu sagði í samtali við Bæjarins besta að þetta væri það mesta sem farið hefði í gegnum sláturhúsið á einum degi og að starfsfólkið hefði staðið sig með miklum ágætum.

Laxinn er pakkaður heill og slægður í frauðplastkassa og fluttur þannig frá sláturhúsinu. Það þarf 7 – 8 vöruflutningabíla með trailer til þess að flytja laxinn. Langmest fer í skip á erlendan markað frá Þorlákshöfn og Reykjavík. Mest fer til Bandaríkjanna að sögn Kristjáns. Laxinn sem slátrað var í gær var keyrður suður í gær og í dag og fer í skip á þriðjudaginn. Eitthvað af laxinum fer einnig til vinnsluaðila innanlands sem framleiða til sölu í verslunum.

Miðað við verð á eldislaxinum á erlendum mörkuðum má ætla að útflutningsverðmætið á framleiðslunni þennan eina dag sé 150 -180 milljónir króna.

Frá opnun Drymlu í Bolungarvík.
DEILA