F. 5. apríl 1931-D. 1. september 2024.
Jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í Reykjavík 20. september.
Greftrun fór fram á Eyrarbakka 21. september.
Verundin verður fráleitt söm að Hauki, virktavini okkar Guðlaugssyni, gengnum. Nú verður til dæmis ekki lengur unnt að hringja og furða sig á því, að kirkjuorganistar margir skuli snúa baki við hljóðfæri sínu, en klimpra í staðinn á píanó við guðsþjónustur.
Lagsbróðir hans á Eyrarbakka sagði svo frá, að drengur hefði Haukur stundað fingraæfingar á grjótgörðum og grindverkum í þorpinu. Eljan entist honum langa ævi, en próf. Förstermann í Hamborg sagði við þennan aðsætna nemanda sinn: “Üben Sie nicht zu viel, Herr Gudlaugsson!”
Í formála að Kennslubók sinni í orgelleik, skrifaði Haukur: “Sumir reyna að spara orkuna á öllum sviðum áður en til tónleika kemur. Til dæmis að fara helmingi hægar að öllu, ganga hægar. Þetta hefur slökun í för með sér og undirbýr þann sem á þá einbeitingu í vændum sem tónleikahaldi fylgir.”
Einhverjir komu auga á Hauk, þar sem hann dróst upp Bakarabrekkuna í Reykjavík. Varð naumast sagt, að hann kæmist úr sporunum; hann fór eins hægt og kostur var, án þess þó að standa alveg kyrr. Ályktuðu menn, að nú væru hljómleikar skammt undan.
Barn að aldri vildi Haukur verða listmálari og lét koma trönur og liti úr höndluninni syðra. En Guðlaugur faðir hans, kaupmaður á Eyrarbakka, hafði ótrú á því að unnt væri að lifa af þessu.
Haukur byrjaði því að læra á orgel hjá móðurbróður sínum Kristni Jónassyni, sem var organisti á Eyrarbakka. Seinna útskrifaðist hann með láði frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og hélt stálpaður til Hamborgar í framhaldsnám ásamt Mána Sigurjónssyni. Á skipsfjöl hittu þeir félagar stúlku, sem spurði þá forviða hvers vegna svo ungir menn ætluðu að fara að læra á orgel og opinberaði þar með það álit Íslendinga löngum, að organistar gætu þeir einir verið, sem komnir væru að fótum fram.
Stundum hefur verið látið að því liggja, að Haukur söngmálastjóri hefði gefið sig enn meira við organslættinum, ef hann hefði ekki verið svo önnum kafinn að halda frið við músíkalska organista uppi í sveit. Hann braut sig í mola fyrir mesta byrjandann í tónlistinni, enda hringdu skjólstæðingar hann hiklaust upp í símann á hvaða tíma sólarhrings sem var. Engin fyrirhöfn var of mikil, engir þeir framkrókar að hann legði sig ekki í þá, ef lánast kynni að koma því til leiðar, að í hugskoti reynds organista kviknaði meira ljós. Eins lagði Haukur nótt við dag ef takast mætti að nudda einkennilegum unglingi til þess að fara að pota ögn á orgel. Af sjálfu leiddi, að organistanámskeið hans í Skálholti tókust vel, enda varla nokkur svo kaldgeðja að særa þetta velviljaða, brosmilda og bónþæga prúðmenni með því að leggja sig ekki fram. Efnisskráin var við allra hæfi, bæði tilaðmynda “Aus tiefer Not”, “Sjá þann hinn mikla flokk sem fjöll” og “Yesterday”. Enginn var svo harðbrjósta að vaka ekki heldur nótt að glöggva sig á svörtu nótunum en að óhlýðnast Hauki. Hann fann öllum kirkjusöngvurum Íslands gistirými í Skálholti, en svaf sjálfur úti í hlöðu.
Með öðlingnum Hauki Guðlaugssyni höfum við misst einn okkar allra besta vin. Guð blessi minningu drengsins góða, hins holla velgerðamanns kirkju og kristni á Íslandi. Guð huggi, styrki og verndi ástvini hans alla.
Gunnar Björnsson,
pastor emeritus.