Vegagerðin: nýtt áhættumat fyrir Vestfjarðagöng unnið í vetur

Bergþóra Kristinsdóttir. Mynd: visir.is

Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdatjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar segir að í vetur verði unnið nýtt áhættumat fyrir Vestfjarðagöng. Verið sé að vinna að þessu fyrir jarðgöng landsins og lokið sé endurmati fyrir Bolungavíkurgöng og Héðinsfjarðargöng. Næst verði skoðuð Strákagöng, Múlagöng og svo Vestfjarðagöng. Ráðinn er aðkeyptur ráðgjafi við verkið.

Gildandi áhættumat sé gamalt og þörf á uppfærslu. Setja þurfi nýjar upplýsingar um umferð og þungaflutninga sem dæmi sé tekið. Bergþóra vill að þróun umferðarspár verði skoðuð.

Í áhættumati séu m.a. metnar líkur á atburði og við það mat sé breidd ganga og stærð útskota atriði sem skipti máli. Í dag sé það eingöngu tvíbreið göng sem séu boruð, enda gefi þau meira öryggi, t.d. á þann veg að fólksbifreiðar geta snúið við í göngunum.

Þá segir Bergþóra að skoða þurfi viðvörunarbúnað í jarðgöngum.

DEILA