Bæjarstjórn Vesturbyggðar tók fyrir vegamál á fundi sínum á miðvikudaginn. Lögð var fram ályktanun bæjarráðs sem Bæjarins besta hefur áður gert grein fyrir.
Bæjarstjórnin tekur heilshugar undir bókun bæjarráð og lýsir yfir áhyggjum sínum af stöðu vegaframkvæmda á svæðinu. Bæjarstjórn fól bæjarstjóra að óska eftir fundi við Innviðaráðherra og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
Í ályktun bæjarráðs er lýst yfir „áhyggjum af því að ekki sé útlit fyrir það að samfella verði í framkvæmdum á Dynjandisheiði. Heilsárssamgöngur milli norður og suður svæðis Vestfjarða eru mikilvægar fyrir bæði íbúa og atvinnulíf og munu koma til með að gjörbreyta möguleikum Vestfirðinga og annarra landsmanna til þessa að fara um svæðið á ársgrundvelli.“
Þá er jafnframt lýst yfir áhyggjum af mögulegum drætti á útboði lokaáfanga á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit. Framkvæmd sem beðið hefur verið eftir til fjölda ára og mikið áhyggjuefni ef frekari tafir verða á.
Í álytuninni segir að mikilvægt er að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum um Bíldudalsveg 63 niður Trostansfjörð þar sem sú framkvæmd er gríðarlega mikilvægur hlekkur í vegasamgöngum svæðisins.
Bæjarstjórnin tók einnig undir bókanir heimastjórna Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Arnarfjarðar um Suðurfjarðagöng, tvenn jarðgöng milli Arnarfjarðar, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar, og ítrekar mikilvægi þess að tengja saman þéttbýli í nýsameinuðu sveitarfélagi. Bæjarstjórnin mun beita sér fyrir því að undirbúningi og nauðsynlegum rannsóknum vegna Suðurfjarðaganga verði flýtt í samgönguáætlun.