Strandabyggð: kostnaður við grunnskóla hækkar um 24,1 m.kr.

Grunnskólinn á Hólmavík. Mynd: strandir.is

Sveitarstjórn Strandabyggðar hækkaði fjárveitingar til framkvæmda við Grunnskóla Hólmavíkur úr 190 m.kr. í 214,1 m.kr. Hækkunin nemur 24.150.000kr.

Í ágúst var fjárveitingin hækkuð úr 125 m.kr. í 190 m.kr. en sveitarstjórnin segir nú að ljóst er að sú tala er of lág. Framkvæmdir við grunnskólann, þ.e þessi verkhluti, er mjög langt kominn og lokakaflinn og frágangur eftir. Erfitt hefur reynst að áætla suma kostnaðarliði, segir í bókun, en heilt yfir má segja að framkvæmdir hafi gengið vel og engin alvarleg frávik komið upp.

Þá segir að ljóst sé að frekari fjármögnunar er þörf þar sem heildarframkvæmdir ársins við fara úr tæpum 230 milljónum í tæpar 400 milljónir. Kemur þar til að nokkrum verkþáttum í grunnskóla eins og loftræstikerfi, varmadælu og “sprinkler” kerfi var flýtt í stað þess að vinnast á næstu 2-3árum.

Sveitarstjórnarmenn A-lista lögðu fram bókun og óskuðu eftir að á næsta fundi sveitarstjórnar geri endurskoðandi sveitarfélagsins grein fyrir áhrifum af auknum lántökum og útgjaldaauka á fjárhagsstöðu, skuldahlutfalli og möguleikum á framkvæmdum á næstu árum.   

DEILA