Skýrsla um þjóðgarð: ekki afstaða stjórnar Vestfjarðastofu

Titilblað skýrslunnar.

Í skýrslu Vestfjarðastofu um þjóðgarða, sem nýlega var birt , segir að ef orðið yrði við erindi Orkubús Vestfjarða um afnám friðunarskilmála á hluta af landi í Vatnsfirði „vegna virkjanahagsmuna myndi það setja ákvarðanatökukerfi íslenska ríkisins í orku- og landnýtingarmálum, fyrrnefnda Rammaáætlun, í ákveðið uppnám.“ og einnig segir :

neikvæð umræða og ólíklega jákvæðar breytingar

„Það verður því alltaf mjög stór pólitísk ákvörðun hjá ráðherra að taka og líklegt að hagsmunaaðilar í náttúruvernd myndu berjast gegn henni í fjölmiðlum og fyrir dómstólum með tilheyrandi neikvæðri umræðu fyrir Vestfirði.“

Þá er að finna þessa afstöðu til nýlegrar lagabreytingar á Alþingi sem umhverfis- orku og loftslagsráðherra beitti sér fyrir og fékk samþykkta: „Í nýjum lögum um Náttúruverndarstofnun nr. 111/2024, færist hlutverk Umhverfisstofnunar til nýrrar Náttúruverndarstofnunar, en þó er ólíklegt að það muni hafa jákvæðar breytingar í för með sér.“

Skýrslan er að mestu unnin af Hjörleifi Finnssyni verkefnastjóra en var lesin yfir af öðrum sérfræðingum Vestfjarðastofu sem og utanaðkomandi ráðgjafa.

ekki afstaða stjórnar

Stjórn Vestfjarðastofu samþykkti á fundi sínum 28. ágúst að birta skýrsluna með þeim fyrirvörum sem ræddir voru á fundinum.

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu segir að skýrslan sé sérfræðiálit sem er unnin fyrir Vestfjarðastofu og er innlegg til upplýsinga m.a. í vinnu við svæðisskipulag. „Ekki er um að ræða stefnuskjal stjórnar Vestfjarðastofu sem tekur ekki afstöðu til innihaldsins.“

Aðspurð um fyrirvarana segir hún að þeir hafi verið um heimildir bak við skýrsluna og að fengnum skýringum var skýrslan birt.

 

DEILA