Dynjandisheiði: engin ákvörðun um lokaútboð

Frá Dynjandisheiði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri greindi frá því á fundi bæjarráðs í gær að forstjóri Vegagerðarinnar hafi svarað fyrirspurn um stöðu mála á 3. áfanga vegagerðar yfir Dynjandisheiði þannig að ekki hafi verið tekin ákvörðun um tímasetningu útboðs á 3. áfanga Dynjandisheiðar. Fjárlög séu nýkomin út og nú standi yfir vinna hjá Vegagerðinni við að setja upp framkvæmdatöflu næsta árs miðað við þær forsendur sem verða aðgengilegar.

Bæjarráð lýsti yfir vonbrigðum með að ekki skuli liggja fyrir fjármögnun fyrir þriðja áfanga Dynjandisheiðar. „Bæjarráð bendir á að vegkaflinn er á fyrsta áfanga gildandi samgönguáætlunar 2020-2024. Miklar vegbætur hafa orðið á síðustu árum og því grátlegt að sjá þennan stubb standa eftir á þessari miklu samgönguframkvæmd.“

DEILA