Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar sem lagt var fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd kemur fram að þarfagreining bendi til þess að ný slökkvistöð Ísafjarðarbæjar þurfi að vera um 650-785 fermetrar að stærð til að mæta núverandi starfsemi og tryggja öryggi og skilvirkni. Nýtt húsnæði muni bæta viðbragðstíma, auka vinnuþægindi starfsmanna og draga úr rekstrarkostnaði til lengri tíma.
Um helmingur stærðarinnar er til þess að hafa pláss fyrir slökkvibíla, sjúkrabíla og annan búnað sem þarf að geyma innandyra, ásamt aðstöðu til að viðhalda slökkvibílum.
Byggingarkostnaður er áætlaður 299 m.kr. til 361.1 m.kr. og er háður niðurstöðum útboðs og tegundar mannvirkis.
Lagt er til að farið verði í hönnun á árinu 2025 og að gert verði ráð fyrir verkefninu í fjárhagsáætlun.
Skipulags- og mannvirkjanefndin tekur undir þá tillögu og leggur til við bæjarstjórn að farið verði í hönnun á árinu 2025 og að gert verði ráð fyrir hönnunarkostnaði í komandi fjárhagsáætlun.