Lýðskólinn á Flateyri settur á laugardaginn

Nemendur í Flateyrarkirkju. Myndir: aðsendar.

Lýðskólinn á Flateyri var settur á laugardaginn við hátíðlega athöfn í Flateyrarkirkju. Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður Lýðskólans sagði í samtali við Bæjarins besta aðskólinn væri fullsetinn á haustönninni og sagðist lítast vel á nemendahópinn. Tvær námsbrautir eru við skólann og verður önnur þeirra kennd á ensku. Um áramótin verður opnað fyrir erlenda nemendur.

Fjórtán íbúðir eru í nemendagörðunum nýju og auk þess er aðstaða fyrir 6 – 8 nemendur í gamla dvalarheimilinu.

Skólastjóri er Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.

Í setningarræðunni lagði Runólfur áherslu á hamingju, frelsi og ábyrgð og brýndi fyrir nemendum að nota námið til að þroska sig.

„Við í Lýðskólanum viljum vera öðruvísi samfélag. Við viljum vera samfélag hinna félagslegu töfra. Hér kynnist fólk og þroskast með samveru, sjálfsskoðun, sjálfsrækt og lífsleikni þar sem einstaklingar bera virðingu hver fyrir öðrum ásamt því að bera ábyrgð á sjálfum sér og þátttöku sinni í námi og samfélagi.

Forsenda þess er samábyrgð, meðvitund og virkni. Hér berum við því virðingu fyrir þörfum annarra um leið og við leyfum sjálfum okkur að njóta okkar. Það er á okkar ábyrgð að þetta samfélag blómstri. Hér í skólanum gefum við bæði og þiggjum.

Þetta langar mig að segja við ykkur aftur: Hér í skólanum bæði gefum við og þiggjum.“

Runólfur Ágústsson flytur skólasetningaræðuna.

DEILA