Málþing í Menntaskólanum á Ísafirði

Frá málþinginu. Mynd: M.Í.

Í gær tóku dagskólanemendur og starfsfólk MÍ þátt í málþingi í Edinborgarhúsinu sem bar yfirskriftina Við öll í MÍ.

Málþingið hófst kl. 9 með stuttu innslagi frá Villa Neto um mikilvægi þess að það þurfi ekki að tala fullkomlega til að skiljast eða eins og hann sagði beint – þeir skilja sem vilja! Síðan stýrðu þær Jovana Pavlovic og Sema Erla Serdaroglu fræðslu og vinnustofum um fordóma, ólíka menningu, steríótýpur og fjölmenningarsamfélag.  Áhugaverðar umræður sköpuðust í vinnustofunum um fordóma, inngildingu og fjölmenningu svo fátt eitt sé nefnt.

Alls voru þátttakendur á námskeiðinu hátt í 250. Vel fór um þennan stóra hóp í Edinborgarhúsinu og í hádeginu var öllum hópnum síðan boðið í hamborgaraveislu á Edinborg Bistro.

Það er von okkar í MÍ að málþingið hafi verið öllum þátttakendum til gagns. Málefnin sem til umfjöllunar voru eru flókin en mikilvæg og nauðsynlegt fyrir okkur öll að halda umræðunni áfram. Munum að við í MÍ erum allskonar og við fögnum fjölbreytileikanum!

Málþingið hlaut styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála.

DEILA